Site icon Útvarp Saga

Guðlaugur Þór býður sig fram í formannskjöri Sjálfstæðisflokksins

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis og loftslagsráðherra hefur ákveðið að gefa kost á sér í formannsembætti flokksins en kosið verður í embættið á landsfundi flokksins um næstu helgi og því ljóst að Bjarni Benediktsson núverandi formaður sem einnig gefur kost á sér til áframhaldandi formennsku og Guðlaugur munu keppast um formannssætið en, enn sem komið er hafa ekki fleiri gefið kost á sér. Guðlaugur kynnti ákvörðun sína á fundi með stuðningsfólki sínu í Valhöll fyrir stundu en þar var fullt út úr dyrum. Bjarni Benediktsson sagði í fjölmiðlum í morgun að myndi hann tapa fyrir Guðlaugi í formannskjörinu myndi það marka endalok ferils hans í stjórnmálum.

Í ræðu sinni sagði Guðlaugur að undanfarin ár hafi flokkurinn aðeins unnið varnarsigra en að slíkt sé ekki nóg og nú væri kominn tími til sóknar hjá Sjálfstæðisflokknum og það væri ein af ástæðum þess að hann byði sig fram nú til formanns.

„kæru vinir ég hef unnið með grasrótinni, ykkur fólkinu í flokknum og þið þekkið verk mín, sjálfstæðisstefnan er mitt leiðarljós í öllum mínum verkum og það er á þessum grunni, grunni verka minna og stefnu flokksins sem ég hef ákveðið að bjóða mig fram til formennsku í Sjálfstæðisflokknum“ sagði Guðlaugur við mikinn fögnuð viðstaddra.

Guðlaugur Þór er einn af reynslumestu þingmönnum Sjálfstæðisflokksins en hann settist fyrst á þing fyrir flokkinn árið 2003. Guðlaugur hefur einnig umtalsverða ráðherrareynslu en hann var heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra 2007–2008. Heilbrigðisráðherra 2008–2009. Utanríkisráðherra 2017–2019. Utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra 2020–2021 og svo umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra síðan 2021. Ræðu Guðlaugs má hlusta á í spilaranum hér að neðan.

https://utvarpsaga.is/wp-content/uploads/2022/10/Raeda-Gudlaugs-30.10.22.mp3
Ágústa Johnson eiginkona Guðlaugs Þórs var í Valhöll ásamt börnum þeirra.
Deila þessari frétt á samfélagsmiðla