Site icon Útvarp Saga

Kristrún segir barnabótaloforð Katrínar vera bókhaldsblekkingu

Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar sem áður hafði hrósað Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra fyrir framgöngu hennar og framlag í kjarasamningum með loforðum um hækkun barnabóta hefur nú dregið hrós sitt til baka.

Ástæðuna segir Kristrún vera þá að þegar málið sé skoðað ofan í kjölinn sé ekki einu sinni um raunaukningu að ræða.

Í ræðu sinni á þingi í gær sagði Kristrún vegna málsins:

„Forsætisráðherra tilkynnti um 5 milljarða króna hækkun barnabóta í tengslum við
kjarasamninga í byrjun viku. Ég hrósaði ríkisstjórninni af þessu tilefni. Nú vil ég draga þetta hrós til baka og lýsa yfir vonbrigðum með framkomu forsætisráðherra í þessu máli. Því komið hefur á daginn að þessi aukning upp á 5 milljarða er í raun aukning upp á 2 milljarða. Miðað við þá fjármálaáætlun sem var samþykkt í vor — það fjárlagafrumvarp sem lagt var fram í haust og frumvarpið eins og það liggur fyrir Alþingi eftir breytingar. Og ekki nóg með það: á árinu 2023 — á gildistíma þessara kjarasamninga — þá kemur á daginn að aukningin er ekki nema 600 milljónir króna. Þannig urðu þessir 5 milljarðar að 2 milljörðum. Og ekki nema 600 milljónum á næsta ári. Það er ekki einu sinni raunaukning á gildistíma kjarasamninganna — engin aukning til barnabóta ef tekið er tillit til verðbólgu. Svona bókhaldsblekkingar draga úr trausti. Og — ég vil taka það fram að svona stjórnmál eru mér ekki að skapi. Að lokum vil ég spyrja: Finnst forsætisráðherra það smekkleg framsetning að boða 5 milljarða hækkun barnabóta, þegar aukningin er í raun mun minni miðað við bæði fjármálaáætlun og frumvarp til fjárlaga?

Þessu svaraði Katrín:

„Eins og kom mjög skýrt fram þegar þessar aðgerðir voru kynntar, og hefur legið fyrir algerlega
frá upphafi, þá verður kostnaður við þessa kerfisbreytingu 5 milljarðar — 5 milljörðum hærri á
næstu tveimur árum en ella hefði orðið miðað við núverandi fjárhæðir og skerðingarmörk. Og
þetta kom skýrt fram við kynningu málsins — það er að segja að óbreyttu kerfi — þannig að ég
held að það sé mikilvægt að háttvirtur þingmaður tali ekki um einhverjar blekkingar því þetta
hefur legið fyrir.“

Kristrún spurði Katrínu að því hvort hún teldi að verkalýðshreyfingin hafi skilið þetta með sama hætti og ríkisstjórnin, að það stæði ekki til að
bæta neinni raunviðbót við kjarasamningana þegar kemur að barnabótum núna um áramótin.

Því svaraði Katrín:

„Þetta hefur verið kynnt fyrir verkalýðshreyfingunni nákvæmlega eins og ég fór hér
yfir áðan. Og ég vil segja það að mMér finnst áhugavert að háttvirtur þingmaður fái sig ekki til að
gleðjast yfir því að við séum að breyta barnabótakerfinu með þeim hætti að við erum að fjölga
þeim fjölskyldum sem njóta barnabóta. Við erum að ná aukinni þekju með barnabótakerfinu eins og ekki bara flokkur háttvirts þingmanns hefur talað fyrir heldur líka margir forystumenn verkalýðshreyfingarinnar.“

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla