Site icon Útvarp Saga

Landsbyggðartenginguna skortir í forustu Sjálfstæðisflokksins

Það vantaði orðið landsbyggðarfólk í forustu í Sjálfstæðisflokksins til þess að fá landsbyggðartengingu enda starfi flokkurinn á landsvísu og því eðlilegt að hann endurspegli það. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Vilhjálms Árnasonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins í síðdegisútvarpinu í dag en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur.

Vilhjálmur segir þetta vera eina af ástæðum þess að hann ákvað  að bjóða sig fram í embætti ritara flokksins en kjörið fer fram næstu helgi.

„það vantaði svolítið landsbyggðartenginguna, ef maður horfir til dæmis á ráðherrahópinn og forustuna í þingflokknum að þá sér maður þetta og fólk vildi fá sterkari landsbyggðarödd að borðinu og ég fór þá að íhuga framboðið til ritaraembættisins fyrir alvöru“segir Vilhjálmur.

Hann bendir á að það sé mikilvægt að raddir landsbyggðar fái að heyrast, ekki síst úr hans kjördæmi, Suðurkjördæmi sem sé eitt stærsta kjördæmið þar sem fjölmargir atvinnuvegir séu starfræktir.

„það er ein mesta orkuöflun landsins í þessu kjördæmi og þarna er stundaður mikill landbúnaður og sjávarútvegur og einnig mikil ferðaþjónusta og þetta er allt tengt auðvitað en ég er nú bara upprunalega sveitastrákur úr Skagafirði“segir Vilhjálmur.

Vilhjálmur starfaði meðal annars sem lögreglumaður áður en hann tók sæti á þingi og segir lögreglustarfið vera honum mikill innblástur þegar kemur að þingstörfunum.

„það er ekkert starf sem hefur hjálpað mér eins mikið á þinginu og lögreglustarfið, þetta snýst auðvitað um virka hlustun og að bregðast við misjöfnum aðstæðum fólks og það er náttúrulega það sem maður hefur úr lögreglunni því þar hefur maður séð allt sem gerist í samfélaginu, allt frá hinu versta til hins góða“ segir Vilhjálmur.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla