Site icon Útvarp Saga

Landsréttur: Angjelin Sterkaj dæmdur í 20 ára fangelsi og samverkamennirnir í 14 ára fangelsi

Landréttur dæmdi í dag Angjelin Sterkaj í 20 ára fangelsi og þau Murat Selivrada, Claudiu Sophiu Carvalho og Shpetim Qerimi í 14 ára fangelsi hvert fyrir morðið á Armando Beqirai við heimili Armando við Rauðagerði í febrúar í fyrra. Þetta eru meðal þyngstu dóma í íslenskri réttarsögu.

Í samantekt Landsréttar um málið segir að fólkið hafi staðið saman að því að svipta Armando lífi við
heimili hans og því bæri að sakfella þau öll, hvert fyrir sinn þátt í málinu. Í dómi Landsréttar kom fram að framburðir ákærðu væru ótrúverðugir.

Með þátttöku í skipulagningu og öðrum undirbúningi þess að Agngjelin gæti hitt Armando einan fyrir utan heimili hans var talið hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærðu hafi átt verkskipta aðild að því að Armando var ráðinn af dögum og um samverknað allra ákærðu hefði verið að ræða. Þá var því hafnað að verknaðurinn hefði helgast af neyðarvörn Angjelin.

Vísað var til þess að málið ætti sér ekki hliðstæðu í íslenskri réttarsögu á síðari tímum. Við ákvörðun refsingar var til þess litið að atlaga Angjelin gegn Armando hefði verið þaulskipulögð og í senn ofsafengin og miskunnarlaus, en Angjelin hefði, með afar einbeittum ásetningi, skotið Armando viðstöðulaust níu skotum í brjóst og
höfuð.

Í ljósi þess að brotið var framið í félagi var það virt ákærðu til refsiþyngingar. Með hliðsjón af því var refsing Angjelin ákveðin fangelsi í 20 ár, og ákærðu Claudiu, Murat og Shpetim hvers um sig fangelsi í 14 ár. Loks var Angjelin gert að greiða eiginkonu, börnum og foreldrum Armando bætur.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla