Site icon Útvarp Saga

Leggja til að flugvallarskilyrði í Hvassahrauni verði könnuð nánar

Starfshópur um framtíð Reykjavíkurflugvallar hefur skilað Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra áfangaskýrslu sinni.
Tillögur starfshópsins eru að flugvallarskilyrði í Hvassahrauni verði fullkönnuð svo fljótt sem verða má með nauðsynlegum rannsóknum er varða flug á svæðinu áður en ákvörðun yrði tekin um að byggja nýjan flugvöll þar. Einnig yrðu tryggðar greiðar samgöngur milli borgarinnar og hins mögulega nýja flugvallar. Þá leggur hópurinn áherslu á að tryggja verði rekstraröryggi flugvallarins í Vatnsmýri og að brautir verði ekki styttar eða þeim lokað fyrr en nýr flugvöllur er tilbúinn til notkunar og bent er á að hraðað verði sem kostur er ákvarðanatöku vegna málsins.
Hópnum var falið það hlutverk að leiða viðræður samgönguyfirvalda, heilbrigðisyfirvalda, Reykjavíkurborgar og annarra sveitarfélaga og hagsmunaaðila til að finna viðunandi lausn á framtíð Reykjavíkurflugvallar. Þá var hópnum jafnframt falið að leita lausna sem gætu sætt ólík sjónarmið um hlutverk flugvallarins í dag og til framtíðar. Hópnum var falið að taka mið af eftirfarandi skilyrðum í viðræðum sínum:
Þá hafði starfshópurinn einnig til hliðsjónar skýrslu Þorgeirs Pálssonar um öryggishlutverk Reykjavíkurflugvallar, samkomulag Reykjavíkurborgar og ríkisins bæði í apríl og október 2013, taka tillit til markmiða samgönguáætlunar og niðurstöðu svokallaðrar  Rögnunefndar frá júní 2015 um flugvallakosti á höfuðborgarsvæðinu.
Starfshópurinn hefur nú haldið sjö fundi og segir í skýrslunni að í gögnum komi fram að horft sé til Hvassahrauns sem líklegasta kosts fyrir nýjan flugvöll á höfuðborgarsvæðinu verði flugvöllur í Vatnsmýri aflagður. Hafi því verið ákveðið að skoða þann kost og ræða fyrst við aðila sem gerst þekkja aðstæður þar. Þá fór hópurinn yfir aðalskipulag Reykjavíkur fyrir árin 2010 til 2030.
Í starfshópnum sátu Hreinn Loftsson, lögmaður, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir ráðgjafi, Linda Gunnarsdóttir flugstjóri, Róbert Guðfinnsson athafnamaður og Sveinn Magnússon, skrifstofustjóri í velferðarráðuneytinu.
Smelltu hér til þess að lesa áfangaskýrslu starfshópsins

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla