Site icon Útvarp Saga

Öflugt starf yngri hópa innan skákhreyfingarinnar á Íslandi er ekki að skila af sér afreksmönnum

Björn Þorfinnsson

Þó hér á landi sé rekið öflugt starf fyrir yngri hópa innan skákhreyfingarinnar virðist það ekki vera að skila af sér afreksmönnum. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Björns Þorfinnssonar alþjóðlegs meistara í skák og ritstjóra DV í þættinum Við skákborðið sem hóf göngu sína í dag á Útvarpi Sögu, en hann var gestur Kristjáns Arnar Elíassonar alþjóðlegs skákdómara sem stjórnar þættinum.

Björn segir að það sé hans mat að það sé töluvert langur vegur að því að við förum að sjá innlenda afreksmenn í skák, að minnsta kosti séu ekki margir sem komi til greina sem stendur. Það séu þó einstaklingar sem við eigum hér á landi sem séu feiknagóðir skákmenn og er Vignir Vatnar einn þeirra. Björn telur að með góðum stuðningi geti Vignir klárlega orði sterkur stórmeistari. Það sé þó ekkert sem bendi til þess að Íslendingar séu að fara að eignast nýja fjórmenningaklíku.

Hann segir íslenska krakka sem tefla skák að staðaldri þó vera vel samkeppnishæfa við aðra norræna skákmenn.

Björn segist afar sáttur við sjálfan sig sem skákmann í dag, hann sé kominn með þann styrkleika að geta strítt atvinnumönnunum og náð af þeim einum og einum vinningi. Hann segir mikinn ávinning í því að tefla.

„Ég, með minn flókna haus sem er út um allt, tel að skákin hafi gert það að verkum eða hjálpað mér að vera fúnkerandi í lífinu þannig að ég er mikill talsmaður þess hversu mikill ávinningur er í því að tefla“

Við skákborðið er vikulegur þáttur á Útvarpi Sögu sem fjallar um skák og tengd málefni á innlendum og erlendum vettvangi. Umsjónarmaður þáttarins er Kristján Örn Elíasson alþjóðlegur skákdómari.

Kristján Örn Elíasson
Deila þessari frétt á samfélagsmiðla