Site icon Útvarp Saga

Ráðherrar undirrituðu yfirlýsingu Evrópuríkja um samgöngur og loftslagsbreytingar

Jón Gunnarsson samgöngumálaráðherra ritaði undir yfirlýsinguna fyrir Íslands hönd

Jón Gunnarsson samgöngumálaráðherra ritaði undir yfirlýsinguna fyrir Íslands hönd

Samgönguráðherrar aðildarríkja samgöngunefndar Efnahagsnefndar Sameinuðu þjóðanna fyrir Evrópu, UNECE, fögnuðu 70 ára afmæli nefndarinnar á fundi í Genf í vikunni. Af þessu tilefni undirrituðu ráðherrarnir yfirlýsinguna Embracing the new era for sustainable inland transport and mobility sem fjallar um samgöngur og áherslur í umhverfismálum og umferðaröryggi.

Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, sat fundinn og undirritaði yfirlýsinguna fyrir Íslands hönd.
Helstu markmið yfirlýsingarinnar snúa meðal annars að sjálfbærni í samgöngum og ekki síst til að styðja við stefnumótun aðildarríkja SÞ um heimsmarkmið SÞ. Jafnframt eru aðildarríkin hvött til efla þátttöku sína í samgöngunefndinni. Áhersla er lögð á að efla framlag samgangna í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Einnig sé mikilvægt að efla umferðaröryggi með það markmiði að draga úr slysum. Að lokum er lögð áhersla á mikilvægi þess að efla tæknivæðingu samgangna ekki síst með enn frekari þróun stafrænnar tækni.
Alls eiga 56 ríki aðild að nefndinni og sóttu ríflega 40 ráðherrar og staðgenglar þeirra fundinn.
Markmiðið með störfum nefndarinnar er að stuðla að öruggum, samkeppnishæfum og sjálfbærum landflutningum sem og flutningum um ár og vötn, innan og á milli landa. Mest áhersla hefur verið lögð á verkefni á sviði umferðaröryggis, umhverfismála, orkunýtingar og skilvirkrar þjónustu m.a. með því að vinna að samræmdum stöðlum um framleiðslu, gerð og búnað ökutækja.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla