Site icon Útvarp Saga

Rúmlega 350 milljónir kr. í menningartengda tekjufallsstyrki

Greiddar hafa verið út 356,8 milljónir kr. í tekjufallsstyrki til rekstraraðila í menningargeiranum og skapandi menningargreinum. Greiðsla styrkjanna hófst í janúar og en markmið þeirra er að styðja við einyrkja og fyrirtæki sem orðið hafa fyrir meira en 40% tekjufalli vegna sóttvarnaráðstafana eða takmarkana vegna COVID-faraldursins á tímabilinu frá apríl til október 2020. Heildarfjárhæð tekjufallsstyrkja sem þegar hafa verið greiddir nemur um 9 milljörðum kr.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra hvetur listafólk til þess að kynna sér úrræðið:


Við kynntum 10 aðgerðir til stuðnings menningarlífinu í október sl., sem unnar voru í góðri samvinnu við Bandalag íslenskra listamanna. Tekjufallsstyrkirnir voru þar á meðal en einnig fjölgun starfslauna listamanna og tímabundin hækkun þeirra. Ég hvet listamenn, og þá sérstaklega þá sem starfa sjálfstætt, til þess að kynna sér úrræðið og nýta sér það.“

Samkvæmt nýjustu tölum hafa alls 126 aðilar í menningargreinum þegið tekjufallsstyrki, en það eru í flestum tilfellum sjálfstætt starfandi einstaklingar eða fyrirtæki með færri en 5 starfsmenn.

Styrkfjárhæðin tekur mið af rekstrarkostnaði og tekjufalli í hverju tilfelli en rekstraraðilar geta átt rétt á styrk sem nemur allt að 500.000 kr. á mánuði fyrir hvert stöðugildi. Hámarksstyrkur er 2-2,5 milljónir króna á mánuði. 

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla