Site icon Útvarp Saga

Sósíalistar stefna á stórkostlegt samfélag

Sósíalistaflokkur Íslands ætlar að stefna á stórkostlegt samfélag komist hann til valda eftir kosningar.

Á Sósíalistaþingi sem haldið var í Tjarnarbíói í dag var afgreidd kosningastefnuskrá Sósíalistaflokksins undir kjörorðinu Stórkostlegt samfélag. Stefnan byggir á einstöku tækifæri Íslendinga til að byggja hér upp réttlátt, öruggt og öflugt samfélag byggt á jöfnuði og samkennd. 

Tækifærið liggur í því að Íslendingar eru fámenn þjóð í stóru landi ríku af auðlindum. Einnig í því að auðvaldið getur ekki hótað því að flytja auð sinn úr landi, þar sem auður á Íslandi byggir á auðlindum sem almenningur á. Og tækifærið er núna vegna þess að Hrunið 2008 og kórónasamdrátturinn hefur afhjúpað hvar aflið liggur til að byggja upp kröftugt samfélag; hjá ríkissjóði, Seðlabanka og almannavaldinu. Ef almenningur nær ekki yfirráðum yfir ríkisvaldinu mun auðvaldið nota þetta afl til að styrkja enn frekar eigin stöðu, lækka á sér skatta, sækja sér styrki og sölsa undir sig enn meira af eignum og auðlindum almennings.

Sósíalistar vilja nota þetta afl til að byggja upp stórkostlegt samfélag byggt á kærleika og samkennd. Þeir vilja endurskipuleggja skattkerfið svo þau sem mest eiga borgi mest en þau sem minnst eiga ekkert og endurheimta auðlindirnar úr höndum auðhringa. Sósíalistar vilja leysa húsnæðisekluna með því að byggja yfir þau sem búa í við okur og óöryggi á húsnæðismarkaðinum, innleiða að nýju gjaldfrjálsa grunnþjónustu, lyfta fólki upp úr fátækt og styrkja alla innviði og grunnkerfi.

Sósíalistar ætla sér líka að ráðast gegn spillingu og elítustjórnmálum og styrkja hagsmunabaráttu almennings gegn auðvaldinu. Í stuttu máli ætla þeir sér að vinda ofan af nýfrjálshyggjunni og öllum þeim skaða sem hún hefur valdið samfélaginu svo hér verði hægt að byggja upp stórkostlegt samfélag fyrir allt fólk.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla