Site icon Útvarp Saga

Stefnt að mótun heildarlöggjafar um net og upplýsingaöryggi

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur kynnt í ríkisstjórn mótun heildarlöggjafar um net- og upplýsingaöryggi sem er næsta skref til eflingar netöryggis á Íslandi.
Í kynningunni kom fram að netöryggi væri eitt brýnasta mál ríkja í okkar heimshluta enda væri netið orðið einn helsti vettvangur skipulagðrar glæpastarfsemi og að iðnnjósnir hafi skaðað heilu atvinnugreinarnar. Kostnaður af vegna netglæpa hér á landi er talinn varlega áætlaður vera hundruð milljóna króna á ári.
Fram kemur í tilkynningu að heildarlöggjöf um net- og upplýsingaöryggi muni ná til þeirra sem veita nauðsynlega stafræna þjónustu og sé slík löggjöf nauðsynleg vegna innleiðingar á tilskipun Evrópusambandsins um sameiginlegar kröfur til öryggis net- og upplýsingakerfa innan ESB.
Þá segir í tilkynningunni að Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hafi fengið Háskólann í Oxford til að meta stöðu netöryggis í íslensku samfélagi og skilaði hann skýrslu um mat á 24 þáttum og um 120 ráðleggingum um umbætur. Netöryggisráð mótar nú tillögur sem byggjast á þessum ráðleggingum og verða þær bráðlega kynntar.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla