Site icon Útvarp Saga

Vigdís hrekur ásakanir um trúnaðarbrest með framlagningu tölvupósta

Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi Miðflokksins.

Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi Miðflokksins ásamt fulltrúm minnihlutans í Reykjavík lagði fram á fundi forsætisnefndar borgarinnar í morgun tölvupósta frá Kjarafélagi viðskiptafræðinga og hagfræðinga þar sem fram koma upplýsingar sem Vigdís var sökuð um að hafa lekið af trúnaðarfundi. Í tölvupóstunum sem Útvarp Saga hefur undir höndum kemur fram hörð gagnrýni á viðbrögð meirihlutans við dómi í eineltismálinu fræga en í tölvupóstunum segir meðal annars “ Niðurstaða dómsins er áfellisdómur yfir stjórnunarháttum í Ráðhúsi Reykjavíkur og stjórnsýslu borgarinnar.“ „Engu að síður hafa tveir starfsmenn eineltisteymis Skóla- og frístundasviðs verið fengnir að forgöngu borgarritara til að rannsaka málið og er fjármálastjóranum gert, þvert gegn vilja sínum, að mæta á fundi vegna þessa. Hér er sem sagt áfram haldið máli sem þó er búið að dæma í, með afdráttarlausum orðum dómara um framkomu skrifstofustjóra í garð undirmanns.“ „Það er raunar fordæmalaust að skrifa þurfi borgarfulltrúum bréf til að upplýsa um stjórnunarvanda í Ráðhúsi Reykjavíkur og áframhaldandi aðför að starfsmanni þar, en þá er þess að geta að eitt af verkefnum borgarráðs er að hafa „umsjón með stjórnsýslu borgarinnar“, eins og segir í 46.gr. samþykkta um stjórn Reykjavíkurborgar, auk þess að „ráða starfsmenn í æðstu stjórnunarstöður hjá Reykjavíkurborg og veita þeim lausn frá störfum“, eins og segir í 73.gr. samþykktanna.“

Segja skrifstofustjóra borgarstjóra ekki vilja una niðurstöðu Héraðsdóms

Þá segir í tölvupósti sem barst frá kjarafélaginu eftir að bréf skrifstofustjóra borgarstjóra og og borgarstjórnar til forsætisnefndar hafði verið birt á mbl.is í gær “ “Lögmaður Reykjavíkurborgar vísaði ítrekað til þess sem fram hafði komið af hálfu fjármálastjórans haustið 2016, að fjármálastjórinn hefði þá sakað skrifstofustjórann um eineltistilburði.”  „Rúmum mánuði eftir að héraðsdómur kvað upp afdráttarlausan úrskurð sinn og dæmdi Reykjavíkurborg til að greiða fjármálastjóranum miskabætur vegna framgöngu skrifstofustjórans,  er áfram haldið og fjármálastjórinn boðaður á næsta fund eineltisteymis þann 18.júlí s.l.    Þessu var einnig mótmælt og var þeim fundi frestað.“

 „Hér vill skrifstofustjórinn ekki una niðurstöðu héraðsdóms heldur reyna að hnekkja henni með eigin rannsókn og halda áfram aðför sinni að fjármálastjóranum.“ „Til að kóróna verkið er síðasta smjörklípan sú að saka borgarfulltrúa um meiðandi og alvarlega umræðu um sig, og leggja fram beiðni um enn aðra rannsókn, þ.e. hvort borgarfulltrúi hafi brotið ákvæði sveitarstjórnarlaga og hvort málið skuli sent siðanefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga.“

Varpar ljósi á málið

Í bókun minnihlutans við framlagningu tölvupóstanna segir meðal annars „Erindin eru lögð fram í því skyni að varpa ljósi á málatilbúnað embættismanna í kjölfar dóms héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-3132-2017. Þar kemur m.a. fram : ,,Það er raunar fordæmalaust að skrifa þurfi borgarfulltrúum bréf til að upplýsa um stjórnunarvanda í Ráðhúsi Reykjavíkur og áframhaldandi aðför að starfsmanni þar, en þá er þess að geta að eitt af verkefnum borgarráðs er að hafa „umsjón með stjórnsýslu borgarinnar“, eins og segir í 46.gr. samþykkta um stjórn Reykjavíkurborgar, auk þess að „ráða starfsmenn í æðstu stjórnunarstöður hjá Reykjavíkurborg og veita þeim lausn frá störfum“, eins og segir í 73.gr. samþykktanna. Þetta kann því vera rétta leiðin til að hafa áhrif á að umræddir stjórnendur í Ráðhúsi Reykjavíkur dragi réttan lærdóm af niðurstöðu Héraðsdóms og láti af ámælisverðri háttsemi sinni.”
Ljóst er samkvæmt þessu að ekki hefur verið brugðist við dómnum með viðeigandi hætti og það viðurkennt að málinu lauk við dómsuppkvaðningu. Í stað þess er haldið áfram og settur upp rannsóknarréttur í ráðhúsinu og ekki er hægt að skilja það öðruvísi en svo að verið sé að véfengja niðurstöðu dómsins.“.
Uppfært 17.ágúst 19:00:
Vigdís Hauksdóttir var gestur í síðdegisútvarpinu í dag þar sem hún fór nánar yfir málið en hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan.
https://utvarpsaga.is/wp-content/uploads/síðdegi-17.8.18.mp3?_=1

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla