Á fimmta tug einstaklinga heimilislausir á Akureyri

Í nýlegri úttekt sem bæjaryfirvöld á Akureyri létu gera kemur fram að 41 einstaklingur er skilgreindur sem heimilislaus á Akureyri. Karlar eru í miklum meirihluta í þeim hópi eða 32 karlar og 9 konur. Af þessum hópi eru 28 manns sem búa alfarið á götunni og 13 eru í sértæku langtíma búsetuúrræði á vegum bæjaryfirvalda. Undanfarna mánuði hafa bæjaryfirvöld leitað að hentugri staðsetningu fyrir smáhýsi fyrir þá verst settu en þær hugmyndir sem lagðar hafa verið fram í þeim efnum hafa jafnan mætt mikilli andstöðu íbúa þeirra svæða sem komið hafa til greina, og hafa íbúarnir bent á að slík úrræði séu ekki heppileg innan í íbúðahverfi þar sem hluti heimilislausra eiga við fíknivanda að stríða. Þá hafa bæjaryfirvöld lýst yfir nauðsyn þess að koma upp áfangaheimili fyrir þá sem eru að koma úr meðferð, enda séu engin úrræði til staðar fyrir þann hóp sem lokið hafi meðferð og því sé mikil hætta á að þeir einstaklinga endi aftur í neyslu. Nýlega voru hugmyndir um áfangaheimili teknar fyrir á bæjarstjórnarfundi og var bæjarstjórnin sammála um að mikilvægt væri að koma á fót áfangaheimili í bænum og hefja þyrfti þá vinnu sem fyrst.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila