Aukin framlög vegna flóða á Suðaustur- og Austurlandi

Ríkisstjórnin hefur samþykkt á grundvelli tillögu samráðshóps ráðuneytisstjóra, að veita þeim stofnunum sem unnið hafa að vöktun og viðbúnaði í kjölfar úrkomuveðurs, vatnavaxta og flóða á Suðaustur- og Austurlandi í lok september og byrjun október síðastliðinn aukin fjárframlög að upphæð 317,6 m.kr til viðbótar þeim sem þegar hafa verið lögð fram, en á ríkisstjórnarfundi þann 5. október 2014 samþykkti þáverandi ríkisstjórn að virkja samráðshóp ráðuneytisstjóra um viðbrögð við náttúruvá, undir forystu forsætisráðuneytisins, og var honum falið að yfirfara fjárþörf og kostnað vegna flóðanna og hafa yfirsýn yfir viðbrögð, aðgerðir og samhæfingu. Um var að ræða atburð á óvissustigi almannavarna. Hópurinn fundaði þrisvar og lagði mat á viðbótarfjárheimildir til stofnana sem helst komu að málum og viðbrögðum. Að tillögu hópsins samþykkti ríkisstjórnin á fundi sínum í dag að fela fjármála- og efnahagsráðherra að veita fjárframlögin úr ríkissjóði af almennum varasjóði,

Framangreind fjárframlög að fjárhæð 317,6 m.kr. fara til almannavarnardeildar Ríkislögreglustjóra, Vegagerðar ríkisins, Landgræðslu ríkisins, Veðurstofu Íslands, Landhelgisgæslu Íslands, Lögreglustjórans á Suðurlandi og Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Þar af er kostnaður mestur hjá Vegagerðinni vegna tjóna á mannvirkjum þeirra eða 145 m.kr. og er áætlaður kostnaður Landgræðslunnar vegna brýnna viðgerða á varnarmannvirkjum á svæðinu 140 m.kr. Þá nemur kostnaður Landhelgisgæslunnar 14,1 m.kr. en önnur fjárframlög eru lægri.

Þá ríkisstjórnin einnig ákveðið að fela umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, í samráði við fjármála- og efnahagsráðuneytið, að gera ítarlegt mat á þörf og kostnaði vegna frekari viðgerða á varnarmannvirkjum Landgræðslunnar á svæðinu þannig koma megi þeim í viðunandi horf til lengri tíma litið. Gert er ráð fyrir að miðað verði við að umhverfis- og auðlindaráðuneytið, í samvinnu við Landgræðsluna, leggi fram tillögu um fjármögnun og tímaáætlun þess þáttar til fjármála- og efnahagsráðherra við gerð næstu fjármálaáætlunar. Í tilkynningu segir að ljóst sé að fjárþörf er umtalsverð þessu til viðbótar til brýnna viðhaldsframkvæmda á varnargörðum Landgræðslunnar á næstu árum og misserum.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila