Fjallað um mannréttindi, örggismál og loftslagsaðgerðir á fundi Sameinuðu þjóðanna

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.

Í gær tók Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra þátt í ráðherrafundi stuðningshóps ríkja um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn og sótti fund í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna um málefni Norður-Kóreu og afvopnun á Kóreuskaga. Á fundi um loftslagsmál gerði Guðlaugur Þór grein fyrir loftslagsstefnu ríkisstjórnarinnar sem nýlega var kynnt. Einnig sótti hann ráðherrafund um málefni Alþjóðlega sakamáladómstólsins.

Utanríkisráðherra hefur átt fjölda tvíhliða funda í tengslum við allsherjarþingið. Fyrr í vikunni fundaði hann með sjávarútvegsráðherra Indónesíu, Susi Pudjiastuti, þar sem rætt var um samstarf ríkjanna í sjávarútvegsmálum og jarðhita. Ráðherra fundaði einnig með Mariu Ubach Font, utanríkisráðherra Andorra, þar sem rætt var um aukna samvinnu í Evrópumálum.
Þá fundaði Guðlaugur Þór einnig í gær með framkvæmdastjóra Evrópuráðsins, Thorbjörn Jagland, um helstu mál á vettvangi ráðsins nú um stundir. Þá ræddi hann við utanríkisráðherra Kósóvó, Behgjet Pacolli, um stöðu mála á vestanverðum Balkanskaga og samskipti ríkjanna. Guðlaugur Þór hitti einnig forsætisráðherra Úganda, Ruhakana Rugunda, um mannréttindamál og aukið samstarf þar sem Ísland hefur nýlega styrkt starfsemi sendiráðsins í Kampala.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila