Fjallað um mikilvægi rannsókna fyrir atvinnulíf og samfélag á morgunverðarfundi

Tækifæri sem felast í doktorsnámi og rannsóknum fyrir atvinnulíf og samfélag voru efni morgunverðarfundar sem Háskóli Íslands stóð fyrir í Hörpu á dögunum. Á fundinum var rætt um hvaða þýðingu rannsóknir doktorsnema og leiðbeinenda þeirra hafi í nútímasamfélagi og hvernig megi efla námið frekar í samstarfi háskóla, atvinnulífs og stjórnvalda.
Aðalfyrirlesari var Peder Holk Nielsen, forstjóri Novozymes A/S í Danmörku, sem er leiðandi fyrirtæki á sviði líftæknilausna. Nielsen ræddi meðal annars um hvernig vísindin eru eina sjálfbæra leiðin til þess að leysa stærstu áskoranir mannkyns.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, ávörpuðu fundinn. Að loknu erindi Nielsens fóru fram umræður þar sem þau Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar og Ásthildur Otharsdóttir, stjórnarformaður Marel, veltu m.a. fyrir sér hvað atvinnulífinu þætti um nýtingu doktorsnáms.
Lokaorð fundarins átti Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. Í ávarpi sínu sagði ráðherra meðal annars ,,Við eigum að samþætta menntastefnu og efnahagsstefnu og búa þannig um hnútana að samspil beggja þátta sé til þess fallið að auka hagsæld og bæta lífskjör. Það mun færa okkur fjölbreyttari störf, byggð á óþrjótandi auðlind, hugvitinu sjálfu. Þannig gerum við okkur gildandi í tæknibyltingu framtíðarinnar. Þar spila doktorar lykilhlutverk, ekki bara til þess tryggja þátttöku í þeirri byltingu, heldur að móta hana, íslensku samfélagi til hagsældar.‘‘

Athugasemdir

athugasemdir

Deila