Forsætisráðherrar funduðu um sameiginlega hagsmuni Íslands og Eistlands

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands og Jüri Ratas, forsætisráðherra Eistlands

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands og Jüri Ratas, forsætisráðherra Eistlands, funduðu í ráðherrabústaðnum í vikunni þar sem rædd voru tvíhliða samskipti og samstarf ríkjanna almennt, svo sem efnahagsmál, netöryggismál og rafrænar lausnir, loftslagsmál, jafnréttismál og svæðisbundið samstarf ríkjanna. Ráðherrarnir fóru jafnframt yfir þróun mála í Evrópu að því er snýr að Evrópusambandinu, EFTA, EES-samningnum og Brexit. Þá ræddu ráðherrarnir komandi leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra segist vilja leggja rækt við vináttu þjóðanna „Við áttum mjög góðan og árangursríkan fund. Við fórum yfir sögu samskipta þjóðanna tveggja og rifjuðum auðvitað upp þegar Íslendingar lýstu yfir stuðningi við sjálfstæði Eistlands árið 1991. Samskiptin hafa verið afar góð og við viljum treysta þau enn frekar í náinni framtíð. Við getum lært heilmargt hvort af öðru, til dæmis getum við Íslendingar horft til tæknilausna í stjórnsýslu og stjórnmálum og netöryggismála sem Eistar standa mjög framarlega í. Við ræddum svo jafnréttismál sérstaklega sem við vorum sammála um að þyrftu að vera á oddinum í allri stefnumótun stjórnvalda.“
Jüri Ratas fundaði einnig með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, og Steingrími J. Sigfússyni, forseta Alþingis, í heimsókn sinni hér á landi. Þá hitti ráðherrann Eistlendinga sem búsettir eru hér á landi og bauð hann til móttöku í Norræna húsinu í tilefni af 100 ára afmæli sjálfstæðis Eistlands síðdegis og þar ávörpuðu hann og Katrín Jakobsdóttir samkomuna.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila