Hagsmunasamtök heimilanna lýsa yfir andstöðu við samþykkt þriðja orkupakkans

Hagsmunasamtök heimilanna hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem samtökin lýsa yfir andstöðu sinni við þriðja orkupakkann. Í tilkynningunni segir meðal annars “ Samtökin beina því til utanríkisráðherra og alþingismanna að nýta sér 102. grein EES samningsins og sækja um undanþágu frá þriðja orkupakkanum, enda tengist landið ekki orkumarkaði ESB. Aðstæður á Íslandi er allt aðrar en á meginlandi Evrópu og við berum ábyrgð gagnvart börnum okkar og barnabörnum á að engin vafi leiki á að orkan okkar verði alltaf sameign þjóðarinnar. Það má aldrei vera háð neinum lögfræðilegum vafa eða einföldum meirihluta á Alþingi. Hagsmunasamtökin vilja jafnframt benda á að hvorki ráðherrar, stjórnmálaflokkar, valdir sérfræðingar eða aðrir sem mæla með þriðja orkupakkanum, munu bera nokkra ábyrgð á gjörðum sínum þegar afleiðingar þeirra skella af fullum þunga á komandi kynslóðum.“
Þá benda samtökin á að reynsla þjóðarinnar af sérfræðingum sé sú að varasamt geti verið að taka of mikið mark á þeim “ Skammt er að minnast skelfilegra aðgerða í kjölfar hrunsins, þar sem heimilum landsins var fórnað á altari markaðsaflanna, í samráði við valda „sérfræðinga“. Þá var þingi og þjóð sagt að um góðar aðgerðir til hjálpar heimilunum væri að ræða. Raunin reyndist önnur og síðan hafa a.m.k. 15.000 fjölskyldur glatað heimilum sínum auk þess sem gerð hafa verið 117.000 fjárnám hjá 340.000 manna þjóð á 10 árum. Enginn einasti þeirra ráðamanna sem að þessum aðgerðum stóðu hafa fengist til að svara fórnarlömbum sínum einu orði um gjörðir sínar og á engan hátt borið nokkra ábyrgð á þeim þrátt fyrir eyðilegginguna sem þær höfðu í för með sér. Sporin hræða. Stjórnmálamenn, eftir ráðgjöf valinna sérfræðinga, einka- og markaðsvæddu bankana með skelfilegum afleiðingum ásamt því að gefa yfirráðin yfir fiskimiðunum okkar til fárra útvaldra sem síðan hafa makað krókinn. Endurtökum ekki mistök fortíðarinnar. Höldum orkunni okkar í þjóðareigu því þar liggja hagsmunir heimilanna um alla framtíð.“,segir að lokum.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila