Heimsþekktir fjárfestar á bak við þekkt vörumerki fjárfesta í íslenskum sprota

Fjárfestirinn Tim Draper.

Íslenska sprotafyrirtækið Authenteq sem hefur unnið í þróun á rafrænum skilríkjum sem hægt er að nota hvar sem er á internetinu hefur fengið gríðarlega mikilvæga fjárfestingu frá stórum erlendum fjárfestum.

Fjárfestarnir koma frá þremur stærstu tæknisprotaborgum heims, Silikondal, London and Berlín.
Þekktastur af þeim er sjálfsagt fjárfestirinn Tim Draper sem á fjárfestingafélagið Draper Associates, en Tim hefur fjárfest í mörgum af þekktustu tæknifyrirtækjum heims og var fyrsti fjárfestir í Tesla, Skype, Box, Hotmail og Twitch, ásamt kínverska tæknirisanum Baidu.
Einnig fjárfesti Initial Capital frá London, en eigendur þess stofnuðu Playfish sem var eitt stærsta “social” tölvuleikjafyrirtækið fyrir nokkrum árum. Þeir hafa verið umsvifamiklir á tölvuleikjamarkaði og meðal annars frumfjárfestar í Supercell frá Finlandi.
Einnig tóku þátt í fjármögnunni þýski fjárfestirinn Cavalry Ventures sem er í eigu stofnanda m.a. Delivery Hero og eru staðsettir í Berlín.
Við erum ótrúlega sáttir við að ná þremur fjárfestum, frá þremur stærstu borgum tæknisprota í heiminum og hafa hundriði fyrirtækja í sínu fjárfestingasafni sem við höfum aðgang að . Við lögðum einnig mikla áherslu á að fá fjárfesta sem sjálfir hafa reynslu af því að stofna og reka sprotafyrirtæki og því að stækka hratt á alþjóðlegum markaði.” segir Kári Þór Rúnarsson framkvæmdastjóri og stofnandi Authenteq.
Hlutafjáraukning var 135 milljónir króna í þessari fyrstu fjármögnunarumferð, en áður hafði fyrirtækið fengið myndarlega styrki frá Tækniþróunarsjóði og Nýsköpunarmiðstöð Íslands, auk þess að taka þátt í viðskiptahraðlinum Startup Reykjavik og var fyrirtækið svo valið inn í Startupbootcamp í framhaldinu.
Stofnendur Authenteq eru Kári Þór Rúnarsson, Rúnar Karlsson og Adam H. Martin.
Ég er verulega stoltur af teyminu og þeim árangri sem við náðum við að þróa mjög tæknilega flókna lausn án þess að taka inn utanaðkomandi hlutafé þangað til núna. Talsverðar fórnir hafa átt sér stað og við værum ekki á þessum tímapunkti nema vegna þrautsegju og trú starfsmanna sem margir hafa lagt á sig ólaunaða vinnu á einhverjum tímapunkti. Það má gagnrýna margt í sprotaumhverfinu á Íslandi, svo sem aðgang að reyndum fjárfestum sem koma með meira verðmæti en bara pening, og svo blessuðu krónuna, en við værum ekki komnir þetta langt ef ekki væri gríðarlega öflugur stuðningur við sprotafyrirtæki sem eru að taka sín fyrstu skref hér. Þar má helst nefna ómetanlegan stuðning frá Tækniþróunarsjóði og Nýsköpunarmiðstöð Íslands.” segir Kári um frumkvöðlaumhverfið á Íslandi.
Fjármagnið verður nýtt til að stækka teymið og undirbúa útgáfu á lausninni fyrir alþjóðlegan markað en fjölmörg fyrirtæki hafa sýnt lausninni áhuga. “Við höfum verið svo heppin að hingað til höfum við ekki þurft að sækja út á við til að selja þar sem fyrirtæki hafa haft samband við okkur af fyrra bragði ólm í að nýta sér lausnina. Við munum þó nýta fjármagnið í að bæta við markaðs- og sölufólki enda er núna lögð áhersla á að stækka og gera Authenteq að auðkenningarstaðli fyrir internet viðskipti og samskipti.” segir Kári að lokum.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila