Héraðsdómur Reykjavíkur braut persónuverndarlög

Persónuvernd hefur komist að þeirri niðurstöðu að Héraðsdómur Reykjavíkur hafi brotið gegn  persónuverndarlögum með því að birta heimilisfang brotavettvangs í dómsmáli sem höfðað var vegna innbrots. Einn íbúa á umræddu heimilisfangi lagði fram kvörtun vegna birtingarinnar og sagði að með birtingunni hafi Héraðsdómur tengt heimilismenn þess heimilisfangs sem birt var við sakarefni sem þeir ættu enga aðkomu að, auk þess sem kvartandi taldi að birtingin hafi ekki verið nauðsynleg í framkvæmd dómstólsins á starfsskyldum sínum. Héraðsdómi var veittur andmælaréttur en samkvæmt svari dómstólsins má álykta að heimilsföng í öðrum sambærilegum málum hafi verið birt, þá einnig með ólögmætum hætti en í svari dómstólsins segir “ Frá því reglur um birtingu dóma tóku fyrst gildi hefur, svo sem að framan greinir, tíðkast að afmá úr dómum heimilisföng þeirra sem nafnleyndar er gætt um. Ekki hefur almennt tíðkast að afmá úr dómum heimilisföng á brotavettvangi, hvort sem háttsemi á undir 244. gr. laga nr. 19/1940 eða önnur ákvæði refsilaga. Gildir það hvort eð er um heimilisföng lögpersóna eða einstaklinga„. Í niðurstöðu persónuverndar segir að birtingin hafi ekki samrýmst lögum vinnslu persónuupplýsinga, og jafnframt segir í niðurstöðunni að ekki séð að nauðsyn hafi borið til að birta heimilisfang kvartanda með húsnúmeri í umræddum dómi, enda verði ekki séð að slíkar upplýsingar varði sakarefnið sem slíkt eða niðurstöðu dómsins og séu nauðsynlegar miðað við tilgang vinnslunnar. Samkvæmt því samrýmdist umrædd vinnsla Héraðsdóms Reykjavíkur ekki því skilyrði að vinnsla persónuupplýsinga skuli ekki vera umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila