Lagaleg staða rafmynta hérlendis óljós

Gildandi lög á Íslandi vernda neytendur ekki sérstaklega gegn tapi á rafmyntum, t.d. ef „markaðstorg“ sem skiptir eða varðveitir rafmyntir bregst skyldum sínum eða ef greiðsla misferst eða kemst í hendur óviðkomandi aðila. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Fjármála og efnahagsráðuneytinu, en í tilkynningunni koma fram hugleiðingar um rafmyntir sem horfur eru á að ryðji sér til rúms hérlendis, líkt og erlendis. Í tilkynningunni er bent á ýmis atriði sem hafa þarf í huga þegar verslað er með rafmyntir en sem dæmi má nefna að handhafi rafmynta eigi ekki kröfu á útgefanda sambærilega því sem við á um peningaseðla og mynt, rafeyri, innlán og annars konar inneign á greiðslureikningi í skilningi laga um greiðsluþjónustu. Þannig sé óhindrað aðgengi að rafmyntum alls ótryggt frá einum tíma til annars.
Þá séu ýmis önnur álitaefni sem hafi verið uppi í tengslum við lagalega stöðu rafmynta, t.d. hvernig skuli greiða skatta af viðskiptum með þær. Jafnframt er til staðar gríðarleg óvissa um verðgildi rafmynta, enda hafa dæmin sýnt að gengi þeirra getur sveiflast mikið.
Þá segir einnig í tilkynningunni að á vettvangi Evrópusambandsins sé náið fylgst með þróun rafmynta en enn liggi ekki fyrir drög að löggjöf um efnið þótt ýmsar tillögur og hugmyndir hafi komið fram.
Í Evrópu hefur verið stigið varlega til jarðar og ekki verið vilji til þess að setja á löggjöf sem gæti virkað hamlandi á framþróun. Fram kemur að Fjármála og efnahagsráðuneytið fylgist með þessari þróun og hafi almennt talið að æskilegt væri að Ísland fylgi þróun innan ESB og setji ekki séríslenskar reglur um rafmyntir.
Erfitt er að segja til um umfang rafmynta hér á landi, en ljóst sé að töluvert er um gröft eftir rafmyntum í gagnaverum hér á landi. Með greftri er átt við að notaður sé reikniformúla til að leysa flókin stærðfræðidæmi sem styrki keðjuna og í staðinn fáist rafmyntir.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila