Lagt til ríkið leggi fram 800 milljarða í framkvæmdir vegna borgarlínu

Viðræðuhópur um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu skilaði niðurstöðum sínum til ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu á dögunum. Markmið hópsins var að leggja grunn að samkomulagi um fjármagnaða áætlun um fjárfestingar í stofnvegum og kerfi almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu, en í tillögunum kemur meðal annars fram að gert sé ráð fyrir að ríkið leggi fram 800 milljarðar til framkvæmdana.
Í skýrslunni kemur fram áhersla á að til þess að draga úr umferðarteppum þurfi að bæta flæði umferðar á vissum gatnamótum og breyta ferðavenjum. Með óbreyttum ferðavenjum til 2030 mun umferð bíla aukast um 40% en með breyttum ferðavenjum aðeins um 24%. Breyttar ferðavenjur eru að fleiri ferðist með almenningssamgöngum, hjólandi eða gangandi. Þá er horft til þess að ef Ísland á að geta mætt alþjóðlegum og innlendum skuldbindingum sínum um að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda þarf að breyta ferðavenjum. Fram kemur í tilkynningu að þess vegna sé Borgarlínu raðað framar í forgangsröð samgönguáætlunar en áður var gert. Þá er jafnframt áhersla hjá viðræðuhópnum á mikilvægi þess að á meginstofnvegunum Reykjanesbraut frá Sundabraut til Suðurnesja og Vesturlandsvegi frá Reykjanesbraut og norður úr ásamt Suðurlandsvegi frá Vesturlandsvegi og austur úr sé sérstaklega hugað að greiðu og öruggu flæði einka- og þungaumferðar.
Líkt og gert var ráð fyrir í viljayfirlýsingu samgönguráðherra og sveitarfélaganna frá í lok september er markmiðið að tillögurnar leiði til breytinga á fyrirliggjandi tillögu að samgönguáætlun, sem er til meðferðar á Alþingi. Á árinu 2019 verði stefnt að að ljúka viðræðum ríkis og sveitarfélaga um frekari útfærslu samstarfs um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu til ársins 2033.
Helstu tillögur viðræðuhópsins eru:

Stofnvegaframkvæmdir

Hópurinn leggur til framkvæmdir á fyrsta tímabili samgönguáætlunar 2019-2023 við gatnamót Reykjanesbrautar og Bústaðavegar, Reykjanesbraut milli Kaldárselsvegar og Krýsuvíkurvegar, Vesturlandsveg í Mosfellsbæ og Suðurlandsveg næst Vesturlandsvegi.
Á öðru tímabili samgönguáætlunar verður hafist handa við að setja hluta Miklubrautar í stokk, lokið við Arnarnesveg, Reykjanesbraut milli Álftanesvegar og Lækjargötu og Reykjanesbraut milli Stekkjabakka og Holtavegar. Á þriðja tímabili er áætlað að Hafnarfjarðarvegur fari í stokk í Garðabæ.
Áætlaður kostnaður við stofnvegaframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu í fyrirliggjandi tillögum er um 50 milljarða.
Get er ráð fyrir að ríkið veiti 300 milljarða framlagi til undirbúnings og framkvæmda vegna Borgarlínu árið 2019 og 500 milljarða árið 2020 gegn sambærilegu mótframlagi frá sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu.
Í skýrslunni er gert ráð fyrir að framkvæmdir við Borgarlínu geti verið kominn á fullan skrið árið 2021 og er lagt til að á fyrsta tímabili samgönguráætlunar, 2019-2023, verði lokið við fyrsta hluta fyrsta áfanga uppbyggingar innviða Borgarlínu frá Ártúni að Hlemmi um Voga, Suðurlandsbraut / Laugaveg og frá Hamraborg að Hlemmi yfir Fossvog um miðborg. Sameiginleg heildarfjárfesting ríkis og sveitarfélaga vegna þess verkefnis er um 16,3 milljarðar.
Þá leggur hópurinn til að lokið verði við fyrsta áfanga Borgarlínu á tímabili 15 ára samgönguáætlunar. Sameiginlegur heildarkostnaður ríkis og sveitarfélaga við þann áfanga er 42 milljarðar.

Göngu- og hjólastígar

Starsfhópurinn leggur til að 1,5 milljörðum verði ráðstafað í  stofnstígaframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu á tímabilinu 2019-2023.

Fjármögnun

Starfshópurinn leggur til að leitað verði nýrra leiða til fjármögnunar framkvæmda við uppbyggingu innviða Borgarlínu. Þannig er lagt til að sveitarfélögum verði tryggð heimild til innheimtu innviðagjalda auk þess sem innheimta veggjalda á höfuðborgarsvæðinu verði útfærð. Þá sé eðlilegt að líta til hækkunar kolefnisgjalda og þeirra markmiða sem þeim er ætlað að ná við ráðstöfun fjármuna til Borgarlínu. Samið verði um kostnaðarhlutdeild ríkisins annars vegar og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hins vegar í Borgarlínu.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila