Leggja fram nýtt þingmál um réttindi fatlaðs fólks

Lagt hefur verið fram nýtt þingmál um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Fyrsti flutningsmaður er Ágúst Ólafur Ágústsson, alþingismaður Samfylkingarinnar. Ísland undirritaði samninginn árið 2007 og fullgilti hann 2016. Með fullgildingu skuldbatt Ísland sig til að tryggja fötluðu fólki þau réttindi sem samningurinn mælir fyrir um en sú skuldbinding er þó aðeins samkvæmt þjóðarétti.
Í tilkynningu segir meðal annars að í íslenskri lagatúlkun þurfi að lögfesta alþjóðlega samninga ef þeir eiga að hafa bein réttaráhrif hér á landi. Samkvæmt íslenskri réttarskipan er ekki hægt að beita samningnum með beinum hætti fyrir íslenskum dómstólum eins og hægt er að gera með almenn lög, nema hann hafi verið lögfestur. Hafi samningur þannig einungis verið fullgiltur en íslensk lög stangast á við einhver ákvæði hans víkja ákvæði samningsins. Þess vegna telja flutningsmenn tillögunnar því nauðsynlegt að ganga skrefinu lengra og lögfesta samninginn eins gert hefur verið með Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna (2013), Mannréttindasáttmála Evrópu (1994) og EES-samninginn (1993). Eins og fyrr segir er fyrsti flutningsmaður þessarar þingsályktunar, Ágúst Ólafur Ágústsson en hann lagði fram þingsályktun um að lögfesta bæri Barnasáttmálann á sínum tíma og var sú þingsályktun samþykkt á Alþingi árið 2009.
Flutningsmenn málsins segja að með lögfestingu á samningi um réttindi fatlaðs fólks verði Ísland eitt af fáum ríkjum heims sem hafa gert slíkt, ef ekki það eina. Þá segir í tilkynningunni að markmið samningsins séu að efla, verja og tryggja full og jöfn mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk til jafns við aðra, jafnframt því að efla og vinna að virðingu fyrir eðlislægri mannlegri reisn þess. Mikilvægustu skilaboð samningsins séu að fatlaðir einstaklingar eigi fullan rétt á öllum viðurkenndum mannréttindum til jafns við aðra og að fá njóta sjálfstæðs lífs og einstaklingsfrelsis til jafns við aðra. Samningurinn sé því mjög öflugt tæki í baráttunni fyrir fullum mannréttindum fatlaðs fólks.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila