Leggja til leiðir sem eiga að tryggja skattskil erlendra ferðaþjónustuaðila

Starfshópurinn sem settur var á laggirnar af fjármála og efnahagsráðherra vegna ábendinga sem fram hafa komið um ójafna samkeppnisstöðu íslenskra ferðaþjónustuaðila gagnvart erlendum keppinautum, einkum á sviði hópferða hefur skilað niðurstöðum og hugmyndum um leiðir til úrbóta. Ábendingarnar snúa fyrst og fremst að skattskilum erlendu aðilanna, einkum skilum á virðisaukaskatti en einnig mögulegri tekjuskattsskyldu þeirra hérlendis vegna þessarar starfsemi, staðgreiðsluskyldu vegna launamanna á þeirra vegum, sem og greiðslu aðflutningsgjalda. Þá bendir hópurinn á að reglubundnar ferðir erlendra skemmtiferðaskipa milli hafna innanlands hafi skapað ójafna samkeppnisstöðu gagnvart veitingahúsum og gististöðum hér á landi.
Meðal þeirra leiða sem hópurinn leggur til úrbóta er að  lögfest verði skylda erlendra ferðaþjónustuaðila sem hafa með höndum skattskylda starfsemi hér á landi til að standa skil á skattgreiðslum áður en ökutæki er flutt úr landi, að viðlögðum refsingum. Samhliða því verði málsmeðferðarreglur skattalaga skoðaðar í slíkum tilvikum með einföldun að leiðarljósi.
Þá verði samstarfsvettvangur settur á laggirnar með tengiliðum frá Ferðamálastofu, tollstjóra, ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra, Vinnumálastofnun, Samgöngustofu og lögreglu til miðlunar upplýsinga og eftir atvikum samstarfs um eftirlit og úrbætur vegna ferðaþjónustustarfsemi á Íslandi.
Einnig er lagt til að tekið verði upp ákvæði í lögum um virðisaukaskatt sem heimili erlendum ferðaþjónustuaðilum sem hafa með höndum virðisaukaskattsskylda starfsemi hér á landi að skrá sig í gegnum einfaldað rafrænt skráningarkerfi vegna skila á virðisaukaskatti hingað til lands.
Fleiri atriði eru einnig nefnd í tillögum starfshópsins til úrbóta, meðal annars að innheimt verði sérstakt gjald fyrir hvern farþega sem er um borð í skemmtiferðaskipi á meðan á innanlandssiglingum þess stendur sem svarar sem næst til þeirra skatta, tolla og annarra gjalda sem útgerð skips þyrfti annars að inna af hendi ef starfsemi hennar væri skráð hérlendis.
Í starfshópnum áttu sæti Hlynur Ingason frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, formaður, Elín Alma Arthursdóttir frá ríkisskattstjóra, Guðný Bjarnarsdóttir frá skattrannsóknarstjóra og Steinþór Þorsteinsson frá tollstjóra. Með starfshópnum störfuðu einnig Ingibjörg Helga Helgadóttir og Jóhanna Norðdahl frá fjármála- og efnahagsráðuneyti og Selma Grétarsdóttir frá tollstjóra.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila