Lögreglumaður ákærður fyrir meint brot í starfi

Héraðssaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur lögreglumanni sem grunaður er um að hafa brotið af sér með alvarlegum hætti í starfi á síðasta ári. Lögreglumaðurinn sem starfar í miðlægri rannsóknardeild er grunaður um að hafa beitt mann sem lögreglan hafði í haldi ofbeldi. Á meðal málsgagna er upptaka af umræddu atviki sem afhent var embætti héraðssaksóknara. Manninum var ekki vikið frá störfum þegar málið kom fyrst upp. Í lok síðasta árs kom til álita hvort senda ætti lögreglumanninn í tímabundið leyfi vegna málsins en það var lögfræðilegt mat að það væri ekki fært þar sem of langur tími væri liðinn frá því að atvikið átti sér stað. Sú ákvörðun verður nú endurskoðuð í ljósi útgáfu ákærunnar og er niðurstöðu að vænta á morgun. Verði maðurinn dæmdur sekur getur það leitt til varanlegrar brottvikningar úr lögreglunni.

Athugasemdir

athugasemdir