Meta umfang kynferðislegrar áreitni, ofbeldis og eineltis á vinnumarkaði

Félags- og jafnréttismálaráðherra hefur ákveðið að skipa nefnd til að meta umfang kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni eða ofbeldis, auk eineltis á vinnumarkaði. Nefndin er skipuð til að bregðast við brýnni þörf fyrir aðgerðir sem umfjöllun um þessi mál í samfélaginu að undanförnu hefur leitt í ljós.
Í tilkynningu segir að auk þess að meta umfang vandans sé nefndinni ætlað að skoða aðgerðir og viðbrögð atvinnurekenda til að koma í veg fyrir athæfi sem þetta á vinnustöðum og hvernig tekið er á málum sem þessum ef upp um þau kemst eða grunur er um slík brot eigi sér stað.
Gert er ráð fyrir að nefndin standi fyrir þríþættri rannsókn þar sem könnuð verði reynsla starfsmanna af kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni eða ofbeldi á vinnustöðum auk eineltis, ýmist sem þolendur, vitni eða gerendur. Jafnframt verði kannað meðal vinnuveitenda hvernig þeir hafa brugðist við framangreindum aðstæðum á vinnustöðum, þar á meðal til hvaða aðgerða hafi verið gripið. Þá verði kannað meðal vinnuveitenda hvort þeir hafi gert skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustöðum sínum, þ.m.t. áætlun um forvarnir þar sem meðal annars komi fram til hvaða aðgerða skuli gripið til að koma í veg fyrir framangreindar aðstæður á vinnustöðum þeirra og til hvaða aðgerða skuli gripið ef komi fram kvörtun, ábending eða rökstuddur grunur um aðstæður eða brot af þessum toga.
Í starfshópinn verða skipaðir fulltrúar frá samtökum launafólks og atvinnurekenda, Jafnréttisstofu, Vinnueftirliti ríkisins, fjármála- og efnaghagsráðuneytinu og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. Félags- og jafnréttismálaráðherra mun skipa formann nefndarinnar

Athugasemdir

athugasemdir

Deila