Miðflokkurinn gagnrýnir framgöngu ríkisstjórnarinnar í orkupakkamálinu

Frá fundi flokksráðsins.

Flokksráð Miðflokksins gagnrýnir harðlega framgöngu ríkisstjórnarinnar í orkupakkamálinu og segir ótækt að svo stórt hagsmunamál sé látið reka á reiðanum af ríkjandi stjórnvöldum. Þetta er meðal þess sem fram kemur í ályktun flokksráðsins sem samþykkt var á fundi ráðsins sem framfór á Akureyri. Í ályktuninni segir meðal annars „ Á hundrað ára fullveldi Íslands virðist ríkisstjórn landsins fyrirmunað að gera það eina sem þjóðin krefst af henni, það er að verja fullveldið, fullveldið sem svo margir lögðu svo mikið á sig til að öðlast. Í málefnum landbúnaðarins skín í gegn áhugaleysið gagnvart fullveldinu.  Rök er snúa að heilnæmi innlends landbúnaðar eru afgreidd sem forpokuð, rök sem snúa að mikilvægi innlendrar matvælaframleiðslu og matvælaöryggi fyrir íslenska þjóð eru afgreidd sem afturhaldssöm og sögð merki um þjóðernishyggju.  Tilfinningin fyrir stolti gagnvart eigin þjóð og því sem hún hefur áorkað virðist valda óþoli hjá litlum en háværum hluta þjóðarinnar.“.

Eigum að vera vera stolt sem þjóð

Þá segir í ályktuninni að sem þjóð ættu stjórnvöld að hafa í huga að stappa stálinu í íslendinga og efla þjóðarstoltið “ Við Íslendingar eigum að vera stolt af því samfélagi sem forfeður okkar byggðu upp af dugnaði og eljusemi.  Við eigum að vera stolt af þeim auðlindum sem við nýtum, hvort sem það eru fiskistofnar lögsögunnar, jarðirnar sem bændur, vörslumenn landsins erja, bláir akrar fjarða landsins, fallvötnin eða þau óteljandi tækifæri sem við stöndum frammi fyrir með því hugviti sem í þjóðinni býr.  
Við eigum að styðja við atvinnulífið með hóflegum sköttum og skynsamlegu regluverki.  Öflugt velferðarsamfélag getur ekki þrifist án öflugs atvinnulífs. Við eigum að verðlauna dugnað, á sama tíma og við styðjum við og verjum þá sem minnst mega sín í samfélaginu. Heildarskattheimta er í dag með því hæsta sem þekkist á meðal vestrænna þjóða.  Sú þróun hefur orðið á vakt Sjálfstæðisflokksins. Af þeirri leið verðum við að snúa, með það fyrir augum að auðvelda fyrirtækjum að vaxa og dafna og tryggja það að fjölskyldur landsins geti sjálfar varið sem mestu af sínu sjálfsaflafé.

Tillögur til samfélagslegra úrbóta

Í tillögum flokksráðsins á fundinum voru ræddar leiðir til ýmissa samfélagslegra úrbóta en þar segir meðal annars “ Tafarlausa lækkun á tryggingagjaldi, umfram þá takmörkuðu lækkun sem ríkisstjórnin hefur boðað. 
Flokksráðsfundurinn skorar á ríki og sveitarfélög að grípa tafarlaust til aðgerða vegna slæmrar stöðu á húsnæðismarkaði og tryggja nægt lóðaframboð og að lóðaverð endurspegli raunkostnað. 
Í komandi kjarasamningum er ljóst að lögð verður áhersla á nokkur atriði sem ríkisvaldið getur lagfært. Má þar nefna húsnæðismál og afnám verðtryggingar. Miðflokkurinn tekur undir áherslur verkalýðshreyfingarinnar varðandi þau atriði.
Alger endurskoðun er nauðsynleg á framlögðum drögum heilbrigðisráðherra að heilbrigðisstefnu til ársins 2030 þar sem ekki er gert ráð fyrir öðru rekstrarformi en ríkisrekstri. Ásamt því að stefna allri þjónustu á einn stað.“

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila