N1 dregur tilkynningu sína um samruna við Festi til baka

Olíufélagið N1 hefur dregið tilkynningu sína um samruna við Festi til baka. N1 hafði tilkynnt fyrirhugaðan samruna félagsins við Festi til Samkeppniseftirlitsins sem síðar hóf rannsókn á kaupum N1 í Festi á grundvelli tilkynningarinnar. Í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu vegna málsins segir meðal annars „Var rannsókn málsins á lokastigi og ákvörðunar að vænta í dag. Ekki kemur hins vegar til ákvörðunar í dag, þar sem N1 hefur nú ákveðið að afturkalla samrunatilkynningu sína. Afturköllun á samrunatilkynningu er eðli máls samkvæmt einhliða ákvörðun N1 sem Samkeppniseftirlitið tekur ekki afstöðu til. Felur afturköllunin í sér að umræddu máli er lokið án ákvörðunar og að samruni N1 og Festi getur ekki að óbreyttu komið til framkvæmda. N1 hefur hins vegar upplýst Samkeppniseftirlitið um að félagið hyggist tilkynna aftur um samrunann. Hefur N1 boðað að í hinu nýja máli muni N1 leggja fram tillögur að skilyrðum sem ætlað er að eyða þeim samkeppnishindrunum sem Samkeppniseftirlitið telur að stafað gætu af samrunanum„,segir í tilkynningunni.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila