Norrænir ráðherra vinnumála funduðu um aðgerðir gegn félagslegum undirboðum

Brotastarfsemi á borð við svarta vinnu, skattsvik, mansal og félagsleg undirboð á vinnumarkaði voru meginumfjöllunarefni fundar norrænna ráðherra vinnumála í Stokkhólmi fyrir helgi. Á fundinum samþykktu ráðherrarnir sameiginlega yfirlýsingu um heilbrigða samkeppni og réttlátar starfsaðstæður á vinnumarkaði. Meginboðskapur yfirlýsingarinnar felur í sér að fyrirtæki eigi að keppa á grundvelli þekkingar og hæfni en ekki hagnast á því að greiða lág laun og vanrækja starfsumhverfi og öryggi starfsfólksins. Yfirlýsingin verður send framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, fjallaði m.a. um innleiðingu jafnlaunavottunar, frumvarp um keðjuábyrgð og réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og um nýtt samkomulag ASÍ  og Samtaka atvinnulífsins um starfsmannaleigur á fundi ráðherranna.
Frumvarpinu sem Ásmundur Einar sagði frá á fundinum og er nú til umfjöllunar á Alþingi felur í sér tillögur um breytingar á ýmsum lögum sem gilda á innlendum vinnumarkaði, m.a. í því skyni að bregðast við tilteknum aðstæðum sem upp hafa komið við framkvæmd viðkomandi laga, s.s. í tengslum við eftirlit á vinnumarkaði. Lagt er til að kveðið verði á um svokallaða keðjuábyrgð notendafyrirtækja í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð og að Vinnumálastofnun verði heimilt að leggja stjórnvaldssektir á fyrirtæki sem veita stofnuninni ekki upplýsingar og/eða aðgang að gögnum í samræmi við lög um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra.
Samkomulag ASÍ og SA um starfsmannaleigur sem Ásmundur Einar kynnti á fundi ráðherranna fjallar um eftirlit með launum og starfskjörum starfsmanna starfsmannaleiga, ábyrgð notendafyrirtækja og sérstaka viðurkenningu á starfsmannaleigum.
Í tengslum við ráðherrafundinn var haldin ráðstefna um aðlögun kvenna af erlendum uppruna að vinnumarkaðinum. Fyrir liggur ný skýrsla um stöðu þessara mála á Norðurlöndunum Nyanlända kvinnors etablering: En komparativ studie av nyanlända kvinnors etablering på arbetsmarknaden i Norden och de etableringspolitiska insatserna og var efni hennar kynnt á ráðstefnunni.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila