Norrænir ráðherrar byggðamála á funduðu í Haparanda

Vel fór á með norrænu byggðamálaráðherrunum.

Samstarf Norðurlandanna á vettvangi byggðamála, flutningur opinberra starfa út á landsbyggðina og áhersluverkefni næsta árs þegar Ísland tekur við formennsku í Norrænu ráðherranefndinni voru í sviðsljósinu á fundi norrænna ráðherra byggðamála sem Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sótti í bænum Haparanda í Svíþjóð í gær.

Kynntar voru stefnur sem unnið er eftir í Noregi og Danmörku varðandi flutning starfa út á landsbyggðina og sagði Sigurður Ingi að þetta væri nokkuð sem Íslendingar gætu lært af. Þetta væru án efa umfangsmestu breytingar af þessum toga á Norðurlöndunum og ef til vill í Evrópu.

 

Sigurður Ingi sagði frá undirbúningi Íslands fyrir formennskuna í Norrænu ráðherranefndinni

Á Íslandi hefði ekki verið unnið samkvæmt slíkri stefnumörkun, en flutningur starfa á landsbyggðina hefði samt verið hluti af byggðapólitík í gegnum árin. „Við teljum að það örvi vöxt á landsbyggðinni og auki jafnvægi milli byggða,“ sagði ráðherra. Sigurður Ingi sagði frá undirbúningi Íslands fyrir formennskuna í Norrænu ráðherranefndinni sem hefst um næstu áramót þegar Ísland tekur við keflinu af Svíþjóð. Áhersla verður m.a. lögð á málefni ungs fólks, sjálfbæra ferðaþjónustu í norðri og málefni hafsins undir formennsku Íslands, en byggðamálin munu einnig speglast í verkefnunum auk þess sem þau tengjast heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
Dagskrá Íslands á formennskuárinu verður kynnt á fundi Norðurlandaráðs í Ósló 31. október nk. Ráðherra fjallaði einnig um NAUST-verkefnið sem var sett af stað undir formennsku Íslands í norræna samstarfinu árið 2014 og lýtur að vestnorrænni byggðaþróunarstefnu. Verkefnið snýst um að bregðast við vandamálum sem snúa að byggð og byggðamálum á Vestur-Norðurlöndum, þ.e. Íslandi, Grænlandi, Færeyjum og norður- og vesturhluta Noregs.
Sérstök áhersla er lögð á atvinnumál, byggðamál og umhverfismál. Verkefninu er ekki lokið, en ráðherra sagði hið vestnorræna samstarf vera mikilvægt og stefnt væri að því að setja það á dagskrá á næsta ári og reyna að ljúka því svo fljótt sem verða má í góðu samstarfi allra er að því koma.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila