Norrænir utanríkisráðherrar sýna Danmörku samstöðu

Utanríkisráðherrar Norðurlanda á fundi sínum í Ósló í gær.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra tók í gær þátt í fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna í Osló. Á fundinum gerði utanríkisráðherra Danmerkur grein fyrir nýlegum lögregluaðgerðum sem komu í veg fyrir morð á írönskum stjórnarandstæðingum búsettum í Danmörku. „Norðurlöndin sýna dönskum yfirvöldum fulla samstöðu vegna tilræðis írönsku leyniþjónustunnar, enda tilræðið árás á norrænt samfélag og þau gildi sem það stendur fyrir,“ sagði Guðlaugur Þór. Þá samþykktu ráðherrarnir sameiginlega yfirlýsingu um málið.

Guðlaugur sagði almennt góða samstöðu ríkja meðal Norðurlandanna í utanríkismálum og samstarfið hafa aukist og dýpkað undanfarin ár. Ráðherrarnir ræddu áskoranir í alþjóðlegum öryggismálum, þ.m.t. átökin í Austur-Úkraínu, samskiptin við Rússland og svæðisbundna öryggissamvinnu í Eystrasaltinu og á Norður-Atlantshafi. Málefni Sameinuðu þjóðanna voru einnig til umræðu þar sem Svíþjóð hefur setið í öryggisráðinu og gerir til ársloka. Þá fóru ráðherrarnir yfir stöðuna varðandi útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, ræddu samstarf við Kína og sameiginlegt kynningarstarf Norðurlandanna í öðrum ríkjum.
Í þættinum Heimsfréttir, fréttir og fréttatengt efni á erlendum vettvangi í dag ræddi Arnþrúður Karlsdóttir við Guðmund Franklín Jónsson viðskiptafræðing og hótelstjóra í Danmörku þar sem hann sagði nánar frá málinu. Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila