Nýjar áskoranir á sviði persónuverndar og friðhelgi einkalífs með aukinni tækni

Aukin tækni, gervigreind ýmis konar tækja og kortlagning kauphegðunarmynsturs einstaklinga eru meðal nýrra áskorana sem takast þarf á við í framtíðinni enda standi samfélagið á barmi fjórðu iðnbyltingarinnar. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri ársskýrslu Persónuverndar. Í skýrslunni er meðal annars bent á að viss áhætta fylgi því að veita óheftan aðgang að persónuupplýsingum með þeim hætti sem gert er í dag, t,d hafi það efnahagslegar afleiðingar fyrir einstaklinga “  það stefnir í að í heiminum verði 24 milljarðar snjalltækja í notkun árið 2020. Flest notum við á degi hverjum nettengd tæki og þau, ásamt skynjurum og annarri nýrri tækni, hafa leitt til þess að velflestar gjörðir okkar eru kortlagðar og rýndar, hvort sem er á heimilum okkar eða utan þeirra. Hefur þetta meðal annars leitt til þess að við borgum mishátt verð fyrir sömu vöruna, byggt á kauphegðun og sögu okkar á Netinu. Forritun tækninnar byggist að miklu leyti á upplýsingum um mannlega hegðun og þessar upplýsingar veitum við að mestu leyti sjálf. Röng úrvinnsla þessara upplýsinga skapar mikla áskorun fyrir vernd friðhelgi einkalífs og persónuupplýsinga.“,segir meðal annars í skýrslunni.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila