Rektorskrísa á Hvanneyri

Frá Hvanneyri.

Erfiðlega hefur gengið að fá nýjan rektor til starfa við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og því hefur þurft að auglýsa eftir rektor á ný. Staða rektors var fyrst auglýst laus til umsóknar síðastliðið vor og kom það í hlut þriggja manna hæfisnefndar að fara yfir þær umsóknir sem bárust. Í júní skilaði nefndin svo niðurstöðum sínum og svo fór að Háskólaráð valdi aðeins einn einstakling úr þeim hópi sem nefndin hafði sett fram til frekara viðtals. Sá umsækjandi gat þó ekki hafið störf innan þess tímaramma sem Háskólaráðið hafði sett. Því fór svo að ákveðið hefur verið að auglýsa stöðuna að nýju auk þess sem ráðið hefur óskað eftir því við menntamálaráðherra að hann aðstoði við að leita leiða til þess að manna stöðu rektors tímabundið með settum rektor. Björn Þorsteinsson fráfarandi rektor óskaði eftir lausn frá störfum vegna persónulegra aðstæðna en hann hefur gengt stöðu rektors frá árinu 2014.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila