Samið um árangursstjórnun við sýslumanninn í Vestmannaeyjum

arangurssamningurSýslumaðurinn í Vestmannaeyjum og innanríkisráðuneytið hafa gert með sér árangursstjórnunarsamning en tilgangur hans er að festa í sessi ákveðið samskiptaferli milli aðila. Þá á samningurinn að skerpa áherslur um stefnumótun, framkvæmd verkefna, áætlanagerð og leggja grunn að mati á árangri af starfsemi embættisins.
Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri og Lára Huld Guðjónsdóttir sýslumaður skrifuðu undir samninginn en hliðstæðir samningar hafa verið gerðir að undanförnu við flest embætti sýslumanna.
Embættið í Vestmannaeyjum sinnir hefðbundnum verkefnum sýslumanns en meðal sérverkefna embættisins má nefna umsjón með löggildingum dómtúlka og skjalaþýðenda. Auk þess sér embættið um að útbúa úrskurði innanríkisráðuneytisins í sifjamálum til birtingar á vefnum urskurdir.is.
Gert er ráð fyrir að samningurinn muni styrkja beitingu árangursstjórnunar sem stýritækis hjá sýslumannsembættinu. Settir eru mælikvarðar og viðmið í ýmsum flokkum svo sem í stjórnsýslu og þjónustu, mannauði og fjármálum. Í samningnum felst meðal annars að sýslumannsembættin hafi forgöngu um reglulegt samráð við sveitarfélög um fyrirkomulag og samræmingu opinberrar þjónustu í umdæmunum og að gerðar verða reglulegar þjónustukannanir. Samningurinn sem undirritaður var gildir til næstu fimm ára

Athugasemdir

athugasemdir