Samkeppniseftirlitið telur það í verkahring stjórnvalda að taka á ofríki RÚV á auglýsingamarkaði

Samkeppniseftirlitið hefur hafnað kröfu Símans um bráðabirgðaúrskurð um rannsókn á hvort RÚV ohf hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína á fjölmiðlamarkaði í tengslum við auglýsingasölu, meðal annars með undirboðum, í tengslum við aðdraganda HM í Rússlandi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu í dag. Í tilkynningunni segir meðal annars “ Samkeppniseftirlitið hafi á fyrri tíð fjallað um stöðu Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Þannig hafi eftirlitið ítrekað vakið athygli á þeirri samkeppnislegu mismunun sem leiðir af núgildandi lögum og felist í þátttöku RÚV á auglýsingamarkaði, samhliða fjárframlögum til félagsins af skattfé„. Þá segir að árið 2008 hafi Samkeppniseftirlitið beint sérstöku áliti til menntamálaráðherra, þar sem lagt var til að þátttaka RÚV á auglýsingamarkaði yrði endurskoðuð. Síðan hafi eftirlitið ítrekað fjallað um þetta, m.a. í umsögnum um frumvörp á þessu sviði. Einnig segir að meðal annars að í ljósi athugasemda samkeppnisyfirvalda og Eftirlitsstofnunar EFTA hafi háttsemi RÚV á auglýsingamarkaði verið settar ákveðnar skorður með lögum um Ríkisútvarpið árið 2013. Þá segir í niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins að eðlilegt væri að ráðuneyti og stjórnvöld sem fari með málefni RÚV taki framangreinda mismunun til skoðunar í þessu ljósi, sem og þær reglur sem settar hafa verið til þess meðal annars að mæta þeirri mismunun.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila