Samþykkir verndarsvæði í byggð

Mennta- og menningarmálaráðherra samþykkti á dögunum að ákveðin svæði innan sveitarfélaga njóti sérstakrar verndar og verði skilgreind sem sérstök verndarsvæði í byggð. Miðsvæði Djúpavogs og Garðahverfi á Álftanesi eru fyrstu verndarsvæðin til þess að verða sett á lista yfir þau svæði.
Í tilkynningu segir að markmiðið með lögunum sé að stuðla að vernd og varðveislu byggðar sem hefur sögulegt gildi. Ákvörðun ráðherra um að svæði njóti slíkrar verndar byggir á tillögum frá sveitarstjórn eða Minjastofnun Íslands og er virk þátttaka sveitarfélaga í verndun slíkra svæða afar þýðingarmikil. Eins og fyrr segir er þetta í fyrsta sinn sem svæði um verndarsvæði í byggð eru skilgreind með staðfestingarskjali og var það kjarninn í miðsvæði Djúpavogskauptúns sem skilgreindur var fyrstur. Það svæði hefur fengið heitið Verndarsvæðið við voginn að tillögu  sveitarstjórnar Djúpavogshrepps. þá undirritaði ráðherra samskonar skjal sem staðfesti tillögu bæjarstjórnar í Garðabæ um að gera Garðahverfi á Álftanesi að verndarsvæði í byggð. Tillögurnar voru báðar unnar í samstarfi við Minjastofnun Íslands.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila