Segir ljóst að bregðast þurfi við niðurstöðum PISA könnunar af fullum þunga

illugi5Illugi Gunnarsson mennta og menningarmálaráðherra segir ljóst að neikvæðar niðurstöður úr nýrri PISA könnun á árangri nemenda gefi tilefni til þess að bregðast við af fullum þunga. Þetta kemur fram í tilkynningu frá mennta og menningarmálaráðuneyti. Í tilkynningunni segir að ráðherra að niðurstöðurnar séu algjörlega óásættanlegar “ Það er ljóst að það er ekki til nein einföld og fljótvirk lausn til að bæta árangur nemenda en við getum ekki sætt okkur við þessar niðurstöður og ætlum okkur að gera allt sem í okkar valdi stendur til að bæta árangurinn. Að mínu mati er farsælast að við setjum fá en metnaðarfull markmið um umbætur í menntamálunum, sem víðtæk samstaða næst um og sem við vinnum markvisst að til langframa. Við höfum þegar hafið átak í lestrarmálum enda er lestrarkunnátta grundvöllur alls náms.  Næsta skref er að ákveða forgangsröðun og aðgerðir í náttúrufræði og stærðfræði og beina kröftum okkar að þeim. Samhliða því verðum við að ná samstöðu ríkis og sveitarfélaga um að efla faglegan stuðning við skóla, hafa langtíma stefnumótun að leiðarljósi og gefa umbótaaðgerðum þann tíma sem þær þurfa. Þrátt fyrir þessar slæmu niðurstöður megum við ekki missa sjónir á að PISA könnunin er aðeins einn af mörgum mælikvörðum á skólakerfið. Hann mælir ekki frammistöðu á öllum sviðum og má þar nefna sköpunargáfu, félagsgreind, frumkvæði og fleiri mikilvæga þætti. Engu að síður gefur PISA könnunin mikilvægar upplýsingar sem við getum ekki litið framhjá og tökum því af fullri alvöru. Að mínu mati er afar margt vel gert í skólunum og kemur meðal annars í ljós í frammistöðu okkar í alþjóðlegu samstarfi á sviði vísinda og rannsókna, frumkvöðlastarfi og góðum árangri á fjölmörgum sviðum„.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila