Siðareglur ráðherra endurskoðaðar

Ríkisstjórnin fjallaði á fundi sínum í morgun um siðareglur ráðherra. Fram kemur í tilkynningu að þær reglur sem nú gilda hafi ekki tekið miklum efnislegum breytingum frá því þær voru fyrst gefnar út vorið 2011 og því verði áframhaldandi umræða um reglurnar á vettvangi ríkisstjórnar á næstu vikum, með það fyrir augum að meta hvernig megi skerpa á tilteknum atriðum er varða efni reglnanna og framkvæmd.

Ákveðið var að forsætisráðherra myndi kalla til utanaðkomandi sérfræðinga til ráðgjafar ekki einungis varðandi siðareglur ráðherra heldur einnig varðandi heilindi í opinberum störfum í víðara samhengi. Gert er ráð fyrir að settur verði á fót starfshópur sem muni ráðleggja og aðstoða við að ná fram þáttum úr stjórnarsáttmálans sem kveður á um að efla traust á stjórnmálum og stjórnsýslu. Þá er gert ráð fyrir að fyrirhugaður starfshópur muni skila af sér skýrslu næsta haust.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila