Skipað í samstarfsráð um uppbyggingu Landspítalans

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur skipað samstarfsráð til að styrkja samvinnu aðila um uppbyggingu Landspítalans og efla samráð og miðlun upplýsinga þannig að áætlanagerð, framkvæmdir og forgangsröðun taki sem best mið af áherslum þeirra sem tengjast verkefninu.
Samstarfsráðið mun starfa á vegum velferðarráðuneytisins og vera heilbrigðisráðherra til samráðs og ráðgjafar meðan á uppbyggingunni stendur, auk þess sem því er ætlað að auka og efla yfirsýn ráðuneytisins með verkefninu í heild á framkvæmdatímanum.
Heilbrigðisráðherra kynnti skipun ráðsins á fundi ríkisstjórnarinnar í dag. Í minnisblaði ráðherra til ríkisstjórnarinnar er bent á að margar stórar ákvarðanir séu framundan vegna uppbyggingarinnar á lóðinni við Hringbraut, en ekki einungis vegna nýframkvæmda, heldur einnig vegna ráðstöfunar og nýtingar á þeim byggingum sem fyrir eru, vegna starfsemi spítalans meðan á framkvæmdum stendur og vegna flutnings starfseminnar eftir því sem framkvæmdunum vindur fram.
Með samstarfsráði eins og þessu gefst tækifæri til að leiða saman sjónarmið, draga fram nýjar hugmyndir að lausnum á Svandís Svavarsdóttir ýmsumviðfangsefnum og tryggja betri skilning aðila á verkefnunum framundan og síðan jafnharðan á  framkvæmdatímanum. Það er mikilvægt að horfa á heildarmynd þessa risavaxna verkefnis á öllum stigum, allt til enda og samstarfsráðið mun þar gegna mikilvægu hlutverki. “ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. Hún bendir einnig á hvernig rannsóknir, vísindi og kennsla séu samofin starfsemi Landspítalans og aðkoma háskólasamfélagsins að uppbyggingunni sé því mikilvæg.
Anna Lilja Gunnarsdóttir, ráðuneytisstjóri velferðarráðuneytisins fer með formennsku í ráðinu. Aðrir fulltrúar eru Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Guðrún Ingvarsdóttir, forstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins og Erling Ásgeirsson, formaður stjórnar Nýs Landspítala ohf. Starfsmaður samstarfsráðsins er Dagný Brynjólfsdóttir, sérfræðingur í velferðarráðuneytinu.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila