Starfshópi falið að endurskoða regluverk um tollkvóta

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur skipað fimm manna starfshóp sem hefur það hlutverk að endurskoða regluverk um úthlutun tollkvóta. Þetta er gert vegna gildistöku tollasamninga Íslands og Evrópusambandsins, en samkvæmt þeim aukast tollkvótar til muna, einkum á kjöti og ostum. Innflutningur innan þessara tollkvóta er tollfrjáls og verður aukinn í skrefum til ársins 2021.

Sem fyrr segir verður hlutverk starfshópsins að endurskoða núverandi fyrirkomulag um úthlutun tollkvóta og finna leiðir til þess að koma ávinningnum sem skapast með þessum takmörkuðu gæðum í meira mæli til neytenda í formi lægra vöruverðs.

Gert er ráð fyrir að starfshópurinn ljúki störfum í nóvember á þessu ári og jafnframt skila skýrslu með tillögum til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Í starfshópnum sitja: 

  • Óli Björn Kárason, alþingismaður, formaður
  • Arnar Freyr Einarsson, hagfræðingur í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu
  • Brynhildur Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna
  • Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur hjá Bændasamtökum Íslands
  • Tryggvi Másson, sérfræðingur á efnahagssviði Samtaka atvinnulífsins

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra segir endurskoðun regluverksins mikilvæga: “Tollasamningar Íslands og Evrópusambandsins sem tóku gildi 1. maí sl. fela í sér umtalsverða stækkun tollkvóta sem koma til framkvæmda á næstu árum. Því er mikilvægt að staldra við og endurskoða það hvernig við úthlutum þessum takmörkuðu gæðum. Í mínum huga er grundvallaratriði að mögulegar breytingar skili sér með sem bestum hætti til neytenda í formi lægra vöruverðs og aukins vöruúrvals.”

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila