Starfshópur vinnur að orkustefnu fyrir Ísland

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur skipað starfshóp með aðkomu allra þingflokka til að vinna orkustefnu fyrir Ísland. Þess er vænst að tillaga hópsins verði lögð fram til umræðu á Alþingi í byrjun árs 2020.
Þórdís lagði fram tillögu um hvernig verkefninu skyldi háttað og var tillagan samþykkt í ríkisstjórn þann 19. janúar síðastliðinn en í kjölfarið var óskað eftir tilnefningum í starfshópinn.
Þórdís segir markmið verkefnisins metnaðarfull og vonast til þess að það skili árangri sem verði þjóðinni til hagsbóta „Það er mikilvægt og metnaðarfullt markmið að ná breiðri pólitískri samstöðu um langtímaorkustefnu fyrir Ísland. Ef vel tekst til gæti niðurstaðan orðið eins konar þjóðarsátt um orkumál sem hægt verður að byggja á til langrar framtíðar,“ segir Þórdís Kolbrún. „Verkefnið er spennandi og ég bind vonir við að okkur takist að sameinast um tilgang og markmið í orkumálum, þjóðinni til heilla. Ég óska öllum fulltrúum í starfshópnum velfarnaðar og tel að þau séu öfundsverð af verkefninu þótt það verði krefjandi.“ Hér að neðan má sjá nöfn þeirra sem skipaðir hafa verið í starfshópinn.

Guðrún Arnbjörg Sævarsdóttir, formaður
Páll Jensson, varaformaður
Albertína F. Elíasdóttir, tilnefnd af þingflokki Samfylkingarinnar
Árni V. Friðriksson, tilnefndur af þingflokki Miðflokksins
Halla Signý Kristjánsdóttir, tilnefnd af þingflokki Framsóknarflokksins
Kolbeinn Óttarsson Proppé, tilnefndur af þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs
Kristín Vala Ragnarsdóttir, tilnefnd af þingflokki Pírata
Njáll Trausti Friðbertsson, tilnefndur af þingflokki Sjálfstæðisflokksins
Ólafur Ísleifsson, tilnefndur af þingflokki Flokks fólksins
Þorsteinn Víglundsson, tilnefndur af þingflokki Viðreisnar
Brynhildur Davíðsdóttir, tilnefnd af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu
Harpa Þórunn Pétursdóttir, tilnefnd af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu
Magnús Júlíusson, tilnefndur af fjármála- og efnahagsráðuneytinu
Ólafur Kr. Hjörleifsson, tilnefndur af samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu
Starfsmaður hópsins er Erla Sigríður Gestsdóttir sérfræðingur í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila