Stefna mótuð um almenningssamgöngur á landsvísu

Sigurður Ingi kynnir drögin.

Grunnur að fyrstu heildarstefnu ríkisins um almenningssamgöngur fyrir allt landið hefur verið mótuð og er nú til kynningar í samráðsgátt stjórnvalda. Starfshópur sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skipaði leggur til að almenningssamgöngur með flugi, ferjum og almenningsvögnum myndi eina sterka heild og að boðið verði upp á eitt leiðarkerfi fyrir allt landið. Markmið er auka hlutdeild almenningssamgangna í ferðum milli byggða á Íslandi og stuðla þannig að umhverfisvænni, öruggari og þjóðhagslega hagkvæmari umferð um allt land.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra segir stefnuna rökrétt framhald af nýrri samgönguáætlun sem Alþingi hefur samþykkt. Í grein sem ráðherra skrifaði í Fréttablaðið í dag segir: „Sterkt almenningssamgöngukerfi um land allt, sem tengir saman byggðakjarna landsins og höfuðborgarsvæðið við landsbyggðina, er forsenda þess að jafna stöðu landsmanna og færa okkur nær hvert öðru. … Nýrri stefnu ríkisins um almenningssamgöngur sem mótuð hefur verið í fyrsta sinn er ætlað að tryggja að þær verði raunhæfur valkostur fyrir alla landsmenn.“

Eitt leiðarkerfi og sameiginleg upplýsingagátt

Í nýju stefnumótuninni er miðað við að þróa eitt samtengt leiðarkerfi á landi, láði og legi. Skilgreindar eru fimm stærri skiptistöðvar á landinu þar sem huga þarf að því að skipuleggja samgöngumiðstöðvar. Þær eru á höfuðborgarsvæðinu, Borgarnesi, Akureyri, Egilsstöðum og Selfossi. Sjö minni skiptistöðvar yrðu einnig í kerfinu fyrir afmarkaðri svæði.
Stefnt er að því að öllum upplýsingum um áfangastaði og tímasetningar í leiðarkerfi almenningssamgangna verði á einni sameiginlegri upplýsingagátt. Á þeim vef verði hægt að fá ferðatillögur í rauntíma, sem tengir saman mismunandi leiðir og ferðamáta og bjóði upp á kaup á farmiðum alla leið. Smelltu hér til þess að skoða drögin.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila