Stefnt á að fjölga hjúkrunarrýmum um 200 innan tveggja ára

Hjúkrunarheimilið Hamrar í Mosfellsbæ.

Stefnt er á að bæta úr þeim vanda sem skapast hefur vegna skorts á hjúkrunarrýmum með því að fjölga þeim umtalsvert en framkvæmdir sem þegar eru hafnar eiga að skila fjölgun hjúkrunarrýma um 200 innan tveggja ára. Í tilkynningu Heilbrigðisráðuneytisins segir að ný hjúkrunarheimili í Hafnarfirði og á Seltjarnarnesi verði tekin í notkun snemma á næsta ári og framkvæmdir við byggingu hjúkrunarheimilis í Árborg og við Sléttuveg í Reykjavík séu komnar vel á veg. Þá segir að á áætlun og í undirbúningi sé uppbygging hjúkrunarheimila í Stykkishólmi, á Höfn í Hornafirði, Húsavík, Reykjanesbæ, Mosfellsbæ og á Akureyri. Að hluta til er þar um endurbætur að ræða vegna úreldingar á eldri rýmum en einnig munu framkvæmdirnar leiða til umtalsverðar fjölgunar hjúkrunarrýma á næstu árum, einkum í Reykjanesbæ, Mosfellsbæ og á Akureyri en einnig á Húsavík og Hornafirði. Áformuð uppbygging hjúkrunarrýma í þessum sveitarfélögum mun auka framboð hjúkrunarrýma sem nemur rúmum 180 rýmum.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila