Stjórnarráðið innleiðir Græn skref í ríkisrekstri

Öll ráðuneyti og Rekstrarfélag Stjórnarráðsins hafa nú hafist handa við innleiðingu grænna skrefa í ríkisrekstri. Nokkur ráðuneyti eru þegar komin áleiðis með Grænu skrefin á meðan önnur eru að hefja vinnu við verkefnið. Gert er ráð fyrir að öll ráðuneytin ljúki öllum skrefunum fimm um áramótin.
Fram kemur í tilkynningu að grænu skrefin felist í litlum og stórum aðgerðum á sviðum flokkunar og minni sóunar, orkunotkunar, samgangna, viðburða og funda á vegum ráðuneyta, innkaupa, upplýsingamiðlunar og umhverfisstjórnunar almennt.
Þá segir að ríkisstjórnin hafi það að markmiði að vera til fyrirmyndar í loftslagsmálum og grænum ríkisrekstri og mun á næstu mánuðum vinna að ýmsum verkefnum sem tengjast því. Meðal annars verður sett loftslagsstefna fyrir Stjórnarráðið og markmið um markvissan samdrátt kolefnisspors ráðuneyta og Rekstrarfélagsins og er þátttaka ráðuneytanna í Grænu skrefunum liður í því.
Sem dæmi um verkefni sem hrint hefur verið í framkvæmd í ráðuneytum má nefna innleiðingu prentskýja sem draga úr pappírsnotkun, flokkun úrgangs, samgöngusamninga, aðstöðu fyrir hjólandi, tilboð um deilibíl, rafhjólatilraun og innkaup á ýmsum umhverfisvottuðum vörum.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila