Stjórnvöld leggja áherslu á víðtækt samráð um ný umferðarlög

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið leggur áherslu á víðtækt samráð um ný  umferðarlög. Fram kemur í tilkynningu að í febrúar síðastliðnum hafi ráðuneytið óskað eftir athugasemdum almennings við drög að frumvarpi til nýrra laga og alls hafi borist 52 umsagnir. Fram kemur í tilkynningunni að markmið með heildarendurskoðun umferðarlaga sé að stuðla enn frekar að bættu umferðaröryggi og bregðast við þeirri þróun sem orðið hefur á samgöngum og samfélaginu í heild á undanförum árum. Fram kemur að árangur hafi náðst í baráttunni gegn umferðarslysum hér á landi undanfarna áratugi, en slysatölur hafi þó sýnt aðeins lakara umferðaröryggi hin allra síðustu ár. Athugasemdirnar sem yfirvöldum hafa borist vegna fyrirhugaðra breytinga á lögunum snúa meðal annars að hjólreiðum og breyttum samgönguháttum, aukinni sjálfvirkni bíla, ákall um skýrari ákvæði um ljósaskyldu ökutækja í ljósi tækniþróunar, stöðubrotum og sektarheimildum lögreglu og stöðubrotsgjaldaheimildum stöðuvarða, vegaeftirliti, notkun farsíma- og snjalltækja við akstur og skort á hlutlægri refsiábyrgð eigenda og umráðamanna bifreiða á hraðasektum og sektum vegna aksturs gegn rauðu ljósi, þ.e. brotum sem mynduð hafa verið með löggæslumyndavél.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila