Stór verkefni hjá Norðurorku munu ekki hafa áhrif á orkuverð

Norðurorka hyggur á stórframkvæmdir á næstunni. Meðal þeirra verkefna sem eru þegar komin í ferli er ný virkjun í Glerá og bygging nýrrar hreinsistöðvar vegna fráveitu við Sandgerðisbót auk fjölda af borverkefnum. Í tilkynningu frá Norðurorku segir að orkunotendur ættu ekki að þurfa að óttast að framkvæmdirnar muni hafa áhrif þar sem staða fyrirtækisins sé góð en hagnaðurinn á síðasta ári var rétt tæpur milljarður króna ” Þrátt fyrir að okkar bíði stór og mikil verkefni í framtíðinni er það von okkar að verðskrár fyrirtækisins verði til lengri tíma litið áfram með þeim hagstæðustu þegar horft er til fyrirtækja í sambærilegum rekstri. Sem samfélagi og einstaklingum er okkur hollt að muna að auðlindir okkar í heitu og köldu vatni eru ekki óþrjótandi. Mikið fjármagn þarf til að afla og vinna nýjar auðlindir og til uppbyggingar á kerfum til að auka flutningsgetu þeirra. Sóun á heitu vatni og neysluvatni eykur og hraðar fjárfestingaþörf í innviðum sem aftur kallar á hækkanir á verðskrá félagsins. Því er mikilvægt að halda til haga þeim tækifærum sem felast í því að fara vel með og forðast sóun á auðlindunum“,segir í tilkynningunni.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila