Telja ekki þörf á að breyta lögum um erlendar fjárfestingar lífeyrissjóða

Starfshópur sem fjármála og efnahagsráðherra skipaði í mars og hafði það hlutverk að kortleggja árlega fjárfestingagetu lífeyrissjóðanna, og hvort breyta þurfi löggjöf um erlendar fjárfestingar þeirra hefur skilað af sér skýrslu um niðurstöður sínar. Í niðurstöðunum kemur fram að lífeyrissjóðunum er í hag að gjaldeyrisviðskipti þeirra valdi sem minnstum sveiflum á gengi krónunnar. Því sé æskilegt að þau verði tiltölulega jöfn og fyrirsjáanleg. Hópurinn bendir á að hugsanlegt sé að ná þessu markmiði að einhverju leyti með því að byggja á fjárfestingaráætlunum sjóðanna og skýrslugjöf til opinberra aðila, sérstaklega Seðlabanka Íslands.

Ekki bráð þörf á að breyta lögum um erlendar fjárfestingar

Einnig kemur fram í niðustöðu hópsins að ekki sé talin bráð þörf á að breyta lögum nú, þar sem núverandi lög um skyldutryggingu lífeyrissjóða fela í sér verulegar heimildir til erlendrar fjárfestingar. Fyrirsjáanlegt er að flestir lífeyrissjóðir muni nýta sér þær á næstu árum og áratugum að verulegu marki, þá segir að æskilegt sé að skoðaðar verði leiðir til að koma í veg fyrir að gengisáhætta vegna erlendra eigna valdi umtalsverðum vandræðum fyrir lífeyrissjóðina og sjóðfélaga. Hugsanlegar leiðir eru reifaðar stuttlega í skýrslunni en starfshópurinn gerir þó enga þeirra að sinni tillögu.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila