Telja litlar líkur á að fuglaflensusmit hafi borist til landsins

Starfshópur sem að undanförnu hefur haft eftirlit með aðgerðum vegna hættu á útbreiðslu fuglaflensu hefur sent frá sér tilkynningu um að varúðarráðstafanir sem gerðar voru hérlendis til þess að draga úr hættu á smiti hafi verið felldar úr gildi, mikilvægt sé þó að eigendur alifugla séu vel á varðbergi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Matvælastofnun. Í tilkynningunni segir meðal annars “ Frá mars á þessu ári hafa borist 26 tilkynningar um samtals 54 dauða fugla. Ekki var í öllum tilvikum hægt að taka sýni vegna þess að hræin voru uppétin eða horfin þegar sýnatökumaður mætti á staðinn. Í einhverjum tilvikum var ekki talin ástæða til að taka sýni vegna vísbendingar um að viðkomandi fugl hafi slasast en hafi líklega ekki verið veikur. Sýni voru tekin úr 14 fuglum og hafa þau öll verið neikvæð. Auk þess bendir lítill fjöldi tilkynninga til þess að ekki hafi verið óeðlileg veikindi og dauðsföll í villtum fuglum. Til viðbótar voru tekin sýni úr 120 álftum sem voru nýkomnar til landsins og komu frá svæðum sem fuglaflensa hefur greinst á. Þau sýni hafa öll verið neikvæð. Sama niðurstaða fékkst úr 39 sýnum úr heiðargæsum, ekki greindist fuglaflensa í þeim. Með hliðsjón af þessum þáttum, sem nefndir eru hér, komst starfshópurinn að þeirra niðurstöðu að litlar líkur séu á að alvarlegt afbrigði af fuglaflensu sé til staðar í villtum fuglum hérlendis, þótt ekki sé hægt að útiloka það. Smithætta fyrir alifugla og aðra fugla í haldi eru litlar, sérstaklega þar sem góðar smitvarnir eru til staðar til að fyrirbyggja smit frá villtum fuglum. Samkvæmt auglýsingu ráðuneytisins er þess ekki lengur krafist að alifuglar og aðrir fuglar í haldi séu haldnir í lokuðu gerði og undir þaki eða innandyra„.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila