Telja sig hafa handtekið manninn sem lýst var eftir

Lögreglan í Stokkhólmi hefur handtekið 39 ára gamlan mann frá Uzbekistan sem er talinn vera maðurinn sem ók flutningabílnum í hryðjuverkaárásinni í Stokkhólmi í gær. Maðurinn var handtekinn í verslun í Märsta eftir að starfsmenn tóku eftir óvenjulegri hegðun mannsins. Við leit á manninum fannst lambhúshetta auk glerbrota sem styrkja grun lögreglu um að maðurinn sé sá sem ók bílnum, auk þess sem hann líkist mjög þeim manni sem lögreglan hafði birt myndir af og lýst eftir. Fregnir herma að annar maður hafi verið handtekinn í Hjulsta vegna árásarinnar en þær fréttir eru þó enn óstaðfestar. Staðfest er að fjórir féllu í árásinni og að fimmtán hafi slasast, en talið er að tala látinna kunni að hækka. Sænska ríkisstjórnin hélt neyðarfund í kvöld vegna atburðanna en ekki hafa enn fengist upplýsingar hvað kom fram á þeim fundi. Þeir sem ekki komust til síns heima úr miðborginni í dag hafa fengið gistingu í húsnæði á vegum borgaryfirvalda í Stokkhólmi auk þess sem Rauði krossinn og sænska kirkjan hafa opnað dyr sínar fyrir þeim sem ekki hafa komist heim, en eins og kunnugt er hafa miklar tafir orðið á samgöngukerfum borgarinnar vegna atburðanna. Á morgun verður flaggað í hálfa stöng á öllum opinberum byggingum í minningu þeirra sem létust í árásunum.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila