Umfangsmikil varnaræfing NATO haldin í Norður – Atlantshafi

Varnaræfing Atlantshafsbandalagsins, Trident Juncture 2018, verður haldin á Norður-Atlantshafi, í Noregi og á Íslandi í október og nóvember næstkomandi. Í tilkynningu segir að um sé að ræða stærstu varnaræfingu bandalagsins frá 2015. Í aðalæfingunni í Noregi, sem hefst 25. október og stendur til 7. nóvember, taka þátt um fjörutíu þúsund hermenn og borgaralegir sérfræðingar frá meira en þrjátíu aðildarríkjum bandalagsins og samstarfsríkjum, þar á meðal Svíþjóð og Finnlandi.
Þá segir í tilkynningunni að í aðdraganda aðalæfingarinnar í Noregi fari fram minni æfing hér á landi undir merkjum Trident Juncture 2018. Fram kemur að æfingin verði haldin þann 16. október í Sandvík, nærri Höfnum í Reykjanesbæ, og á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. 400 manna bandarískt landgöngulið æfir lendingu í Sandvík en um 120 hundrað landgönguliðar verða fluttir með þyrlum á öryggissvæðið þar sem æfð verða viðbrögð við árás á stjórnstöð Landhelgisgæslu Íslands. Sérsveit ríkislögreglustjóra tekur þátt í æfingunni en lögregla og Landhelgisgæsla sjá auk þess um að tryggja öryggi og framfylgja takmörkuðum lokunum á æfingasvæðinu. Ekki er búist við að röskun verði á flugumferð vegna æfingarinnar.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila