Útvarp Saga áfrýjar ákvörðun Póst og fjarskiptastofnunar

afryjunÚtvarp Saga hefur áfrýjað ákvörðun Póst-og fjarskiptastofnunar um að synja útvarpsstöðinni um áframhaldandi útvarpssendinga á tíðninni FM 102,1MHz. Arnþrúður Karlsdóttir útvarpsstjóri, afhenti kæru Útvarps Sögu í dag en skv. ákvörðun Póst-og fjarskiptastofnunar er Útvarpi Sögu gert að loka útvarpssendingum á þessari tíðni frá og með 25.nóvember n.k. eða næsta föstudag að viðlögðum dagsektum sem geta numið allt að kr. 500.000.00 á sólarhring. Útvarp Saga mun áfram senda út á tíðninni  FM 99,4MHz eins og verið hefur en sú tíðni nær aðeins til hluta Reykjavíkur og nágrannabyggða. Það eru því hlustendur á öllu Reykjanessvæðinu, efri byggðum Hafnarfjarðar,Garðabæjar, Kópavogs, Efra Breiðholts, Árbæjarhverfis, Grafarvogs og Akraness sem geta átt von á að heyra ekki í Útvarpi Sögu eftir næsta föstudag.

 

Póst-og fjarskiptastofnun hefur lagaskyldu til að úthluta útvarpsstöðvum tíðnisviðum til þess að tryggja sem mest gæði á útsendingum en hingað til hefur eingöngu RÚV og Bylgjan fengið úthlutað aukatíðnum á höfuðborgarsvæðinu til varanlegra afnota. Útvarp Saga fékk aukatíðnina FM 102,1MHz á árinu 2015 til þess að bæta útsendingarskilyrðin og kom í ljós að samsetningin á tíðnunum FM 99,4 MHz og 102,1MHz virkaði mjög vel og hlustunarskilyrðin  mjög góð með samstillingu þessara tveggja tíðna en Útvarp Saga hefur allt frá árinu 2004 leitað leiða til að bæta gæði útsendinga eða síðustu 12 árin. Það var mjög mikilvægt að Póst-og fjarskiptastofnun samþykkti þetta fyrirkomulag en með ákvörðun sinni frá 25.október s.l. synjaði stofnunin umsókn Útvarps Sögu um varanlega aukatíðni á FM 102,1 eins og áður segir.

Póst-og fjarskiptastofnun segir í synjunarbréfi sínu að þeir geti ekki látið útvarpsstöðvar fá tvær tíðnir á sama útsendingarsvæðinu og tíðnisvið séu auðlind sem þurfi að fara sparlega með. Ekkert er kveðið á um það í lögum að Póst-og fjarskiptastofnun megi ekki úthluta útvarpsstöðvum fleiri en einni , þvert á móti hefur Póst og fjarskiptastofnun þá lagaskyldu að sjá til þess að tíðniauðlindinni sé sem jafnast skipt á milli útvarpsstöðva að teknu tilliti til aðstæðna. Útvarp Saga bendir á að hér sé um brot á jafnræðisreglu að ræða og allir sitji ekki við sama borð og hér sé ekki um fagleg sjónarmið að ræða þar sem Bylgjan hafi á árinu fengið úthlutað varanlegri aukatíðni til ársins 2021 fyrir sama hlustunarsvæði. Útvarp Saga telur að hér sé um geðþóttaákvörðun að ræða.

 

Áfrýjunarnefnd um póst-og fjarskiptamál hefur 3 mánuði til að taka afstöðu til kærunnar en Útvarp Saga óskar eftir að ákvörðun Póst-og fjarskiptastofnunar verði tafarlaust numin úr gildi.

Smelltu hér til þess að lesa kæruna í heild

 

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila